„Ekkert sérstaklega þægileg jól“

Veðrið hefur ekki verið að valda neinum vandræðum hjá Rarik …
Veðrið hefur ekki verið að valda neinum vandræðum hjá Rarik í dag. mbl.is/Sigurður Bogi

„Þetta voru ekkert sérstaklega þægileg jól. Nokkrar truflanir yfir hátíðirnar. Ekkert af einhverjum stærðargráðum og allt svona frekar stutt,“ segir Guðrún Vaka Helgadóttir, sérfræðingur á sviði samskipta og samfélagsmála hjá Rarik.

Veðrið hefur ekki haft áhrif á starfsemi Rarik í dag og bendir ekkert til þess að sögn Guðrúnar en nefnir hún þó að orkufyrirtækið sé alltaf með viðbúnað og vegi og meti aðstæður hverju sinni.

Þá segir hún veður hafa minni áhrif í dag en það gerði forðum daga þar sem orkuflutningur fyrirtækisins fari að mestu í gegnum strengi neðanjarðar.

Elding olli rafmagnsleysi

Hún nefnir þó að einhverjar truflanir á kerfi fyrirtækisins hafi átt sér stað um hátíðirnar sums staðar á landinu en t.a.m. slá niður eldingu á Mýrum sem olli rafmagnsleysi.

Ófært er á sunnanverðu Snæfellsnesi og búist er við frekari leiðindum seinni partinn og nefnir Guðrún að því gæti verið erfitt að komast í viðgerðir ef eitthvað kæmi upp vegna færðarinnar.

„En í svona miklu frosti ætti ekki að verða mikill ágangur á línurnar af því það er í þessum núll gráðum sem það verður þessi ísing. Þegar það er svona mikið frost þá er þetta bara púður og sest ekki jafn mikið á.“

Upphaflega stóð í fréttinni að eldingu hefði slegið niður í Mýrdal en það var á Mýrum. Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert