Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, telur að fresta eigi landsfundi og nota hann til að undirbúa fyrir sveitarstjórnarkosningar. Hann segir að það kunni vel að vera að Sjálfstæðismenn vilji sækja sinn næsta formann af sveitarstjórnarstiginu, en ekki úr þingflokknum.
Þetta kemur fram í grein Elliða sem hann birti á heimasíðu sinni.
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins á að fara fram dagana 28. febrúar - 2. mars en formenn málefnateyma Sjálfstæðisflokksins vinna nú að gerð tillögu um frestun landsfundar, sem miðstjórn þyrfti að taka afstöðu til.
Elliði segir að upphaflega þegar ákveðið var að halda landsfund í febrúar 2025 hafi sú ákvörðun verið tekin til þess að undirbúa flokkinn fyrir Alþingiskosningar.
Nú sé sú þörf ekki lengur fyrir hendi.
„Næstu mikilvægu kosningar eru sveitarstjórnarkosningar sem fara fram 16. maí á þarnæsta ári. Landsfund þarf að nýta til undirbúnings þeirra. Ef það verður best gert með því að fresta landsfundi fram á vor, þá er rétt að gera það. Ég treysti miðstjórn til að vega það og meta,“ skrifar Elliði.
Að mati sumra sjálfstæðismanna þarf að fara fram uppgjör á síðustu þingkosningum og stöðu flokksins og Elliði kveðst taka undir það. Landsfundur sé rétti vettvangurinn fyrir það en hann segir að það sé ekkert sem segi að það uppgjör þurfi að fara fram í febrúar frekar en í maí.
„Mörg rök hníga hins vegar að frestun og er þar ekki nokkur ástæða til að líta fram hjá þeim vanda sem löng ferðalög af landsbyggðinni skapa á þessum árstíma þótt vissulega geti verið erfitt fyrir þá sem ekki hafa kynnst slíku að setja sig í þau spor,“ skrifar Elliði.
Meðal ástæðna sem hafa verið gefnar upp fyrir frestun er veðurfar í lok febrúar, en sem dæmi má nefna að landsfundur flokksins fór fram dagana 21. - 24. febrúar árið 2013 og árið 2018 fór hann fram um miðjan mars.
Hann segir að í stjórnarandstöðu muni gefast tækifæri til að vega og meta getu og nennu þingmanna Sjálfstæðisflokksins og þá hvort eitthvert þeirra geti orðið framtíðarleiðtogi Sjálfstæðisflokksins.
En Elliði nefnir líka að sjálfstæðismenn gætu viljað sækja sinn næsta leiðtoga fyrir utan þingflokk Sjálfstæðisflokksins.
„Það kann meira að segja vera þjóðráð að horfa til leiðtoga í sveitarstjórnum um allt land. Svo mikið er víst að þar er mannvalið mikið og gott. Samhliða uppgjöri við árangur seinustu kosninga þarf áherslan núna að fara á sveitarstjórnarmálin. Þörfin fyrir að líta í baksýnisspegil þingkosninga má ekki hindra sýn okkar á framrúðuna.“