Útburður, tilberi, maurapúki, ástardraugur, brennivínsdraugur og uppvakningur eru draugar sem þekktir eru á Íslandi og sagðar hafa verið sögur af. Bjarni Harðarson bóksali á Selfossi hefur lagt sig eftir að skrá sagnir og frásagnir af kynnum við þessar handan heims verur. Sérstaklega hefur Bjarni lagt áherslu á sagnir af Suðurlandi og þá mest í Árnessýslu.
Hann er gestur Dagmála í dag og umræðuefnið er draugar og sagnir af þeim. Eftir því sem nútímamaðurinn verður upplýstari, bæði hvað varðar þekkingu og birtu hefur þessum sögum fækkað en fólk skyldi fara varlega í að afneita tilvist þessara fyrirbæra.
Bjarni Harðarson hefur verið nátengdur draugasetrinu á Stokkseyri þar sem merkjum þessara vera sem flestum eru huldar, er haldið á lofti. Hann er hluthafi og starfsmaður þegar kemur að undirbúningi. Hann upplýsir að á Stokkseyri hafi verið unnið að því að tegundagreina drauga og í viðtalsbútinum sem fylgir þessari frétt fer hann yfir helstu tegundir sem vitað er um. Á Draugasetrinu er vilji til þess að gefa hinum ólíku tegundum latnesk heiti og með því færa daugana nær hinum viðurkennda vísindaheimi.
Svipir og útburðir eru líkast til þeir sem minnstum usla geta valdið utan þess að vera óhugnanlegir og hrætt þá er verða þeirra varir.
Til eru hins vegar öllu alvarlegri fyrirbæri og þar eru hættulegastir draugar sem vaktir hafa verið upp úr kirkjugörðum og þá iðulega til ákveðinna verka. Í Dagmálum fer Bjarni yfir nútímadraugasögu sem flestir þekkja úr fréttaumfjöllun fyrr á öldinni en fæstir hafa tengt þann aturð við draugagang.
Bjarni Harðarson fer yfir hvernig rétt er að bregðast við ef fólk mætir illvígum uppvakningi. Það er vitneskja sem fáir þekkja í dag. Nú eru magnaðir tímar þegar nýtt ár gengur í garð. Þá er myrkrið mest og draugar og aðrar handan heims verur eru hvað mest á ferli. Sífellt færri virðast trúa á tilvist drauga eða í það minnsta vilja ekki viðurkenna það. Trúir þú á drauga?
Þátturinn í heild sinni er opinn áskrifendum Morgunblaðsins og hér að neðan er hlekkur á viðtalið við Bjarnar Harðarson draugasérfræðing.