Hólmfríður María Ragnhildardóttir, Ólafur A. Pálsson
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, nýr mennta- og barnamálaráðherra, segir blasa við að taka þurfi á læsisvanda barna og huga að íslenskukennslu fyrir innflytjendur, bæði börn og fullorðna.
Hún segir afar margt jákvætt að gerast í skólakerfinu og kraftaverk unnin á hverjum degi í skólastofum af fólki sem vinnur með börnum almennt. Segir hún fólk yfirleitt heyra meira af því sem aflaga fer.
Ásthildur Lóa segist ekki geta svarað því á þessari stundu hvort hún muni sem ráðherra menntamála beita sér í kjaradeilu kennara en vonast til að ekki komi til mikilla átaka.
Telur ráðherrann að bæta þurfi kjör kennara, flótti sé úr stéttinni sem sé að eldast og eitthvað þurfi að gera. Þá segir Ásthildur alvarlegt að samkomulag við kennara hafi ekki verið efnt, eins og kennaraforystan telur.
Samræmt námsmat þarf hugsanlega að endurskoða að einhverju leyti að mati Ásthildar sem telur þó ósennilegt að snúið verði til baka til gömlu samræmdu prófanna. „Ég veit að það hefur verið vinna í ráðuneytinu hvað þetta varðar en það er vinna sem ég á eftir að skoða.“
Garðabær vinnur að öflun upplýsinga um námsárangur grunnskólanema til að fá heildaryfirsýn yfir stöðu skólanna og námsframvindu árganga. Skoðað verður hvort innleiða eigi samræmd mælitæki fyrir grunnskóla svo bærinn geti fylgst betur með árangri barna. Almar Guðmundsson bæjarstjóri segir yfirsýn skólastjórnenda góða en mikilvægt sé að bæjarbúar og bæjarfulltrúar séu upplýstir um stöðu mála. Segir hann að rýna þurfi gögn um árangur rétt og fara rétt með þau. „Það er vandasamt líka,“ segir bæjarstjórinn.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.