Snjó hefur kyngt niður á höfuðborgarsvæðinu og voru snjóruðningstæki í Reykjavíkurborg kölluð út um fjögurleytið í nótt til að ryðja götur og stíga víða um borgina.
Eiður Fannar Erlendsson, yfirmaður vetrarþjónustu hjá Reykjavíkurborg, segir að færðin sé núna orðin fín og að húsagötur ættu að vera færar.
Hann segir tæplega 20 ruðningstæki að störfum í borginni og þeim fari fjölgandi þegar líður á morguninn.
„Þessi snjór á að ganga yfir í dag. Við fylgjumst með hvernig því fram heldur,“ segir Eiður Fannar.