Lögreglunni var tilkynnt um ungmenni að sprengja flugelda í verslunarmiðstöð í Breiðholti.
Engar skemmdir urðu og voru allir farnir af vettvangi þegar lögreglan mætti á staðinn.
Einnig barst tilkynning um hóp ungmenna með læti í strætisvagni í umdæmi lögreglunnar í Kópavogi og Breiðholti. Allir voru rólegir þegar lögreglan kom á vettvang og héldu ungmennin sína leið.
Tilkynnt var um minniháttar skemmdir á bifreiðum í Grafarholti eftir sprengingar. Málið er í rannsókn, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til 5 í morgun. Alls eru 50 mál bókuð í kerfi lögreglunnar á tímabilinu.
Þegar lögregla ætlaði að hafa afskipti af einstaklingi í miðbæ Reykjavíkur hljóp hann á brott en hann var eltur uppi af fótfráum lögreglumanni. Við öryggisleit fundust fíkniefni á honum og talsvert magn af reiðufé. Hann er grunaður um sölu og dreifingu fíkniefna. Þá kom í ljós að einstaklingurinn, sem er erlendur ríkisborgari, var ekki með skilríki meðferðis og gat ekki gert grein fyrir dvöl sinni. Hann var handtekinn og vistaður í þágu rannsóknar málsins.
Þrír voru handteknir af lögreglunni á Hverfisgötu fyrir að aka gegn rauðu ljósi og voru málin afgreidd á vettvangi.
Tilkynnt var um eignaspjöll á gróðurhúsi í Mosfellsbæ og er málið í rannsókn.