Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir að Jimmy Carter, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, sem lést í gær 100 ára að aldri, hafi verið fyrirmynd og landsfaðir í víðum skilningi þess orðs.
„Jimmy Carter var mikill heiðursmaður sem í gegnum sitt lífshlaup var sterkur málsvari friðar og mannréttinda, samvinnu og samstarfs. Hann lagði ávallt áherslu á mikilvægi lýðræðis, ekki einungis fyrir Bandaríkin heldur heimsbyggðina alla,“ segir Þorgerður Katrín í svari við fyrirspurn mbl.is.
Carter var kjörinn 39. forseti Bandaríkjanna árið 1976 og var eitt kjörtímabil, en hann tapaði svo í forsetakosningum á móti Ronald Reagan 1980.
Þjóðarleiðtogar og utanríkisráðherrar um heim allan hafa í dag minnst Jimmys Carters.
„Jimmy Carter var landsfaðir í víðum skilningi þess orðs og fyrirmynd í því hvernig einstaklingar geta haft áhrif á heiminn með hugsjón, mannúð og samkennd að leiðarljósi,“ segir Þorgerður og heldur áfram:
„Þótt hann hafi einungis verið forseti Bandaríkjanna í 4 ár þá hafði hann jákvæð áhrif á Bandaríkin og alþjóðasamstarf, allt til æviloka.“