Þrjú umferðaróhöpp urðu á um 30 mínútna tímabili í morgunsárið á höfuðborgarsvæðinu. Fólk á illa búnum bifreiðum er hvatt til að halda sig heima.
Þetta segir Árni Friðleifsson, aðalvarstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Umferðaróhöppin voru öll minniháttar en tvö þeirra urðu á Sæbrautinni og eitt í Breiðholtinu.
Snjó hefur kyngt niður á höfuðborgarsvæðinu og voru snjóruðningstæki í Reykjavíkurborg kölluð út um fjögurleytið í nótt til að ryðja götur og stíga víða um borgina.
„Það er miklu minni umferð núna en er venjulega, maður finnur það alveg,“ segir Árni og bætir við að umferðin gangi hægt og að ökumenn séu greinilega með varann á.
Hann segir að mikill þæfingur sé víða á höfuðborgarsvæðinu en sem betur fer sé snjórinn mjög léttur og því sé þetta svolítið eins og að keyra á „púðri“.
„Bílar sem eru illa búnir, þeir hafa ekkert að gera út í þetta,“ segir Árni.