Nú eru 43 Íslendingar 100 ára eða eldri og er það svipaður fjöldi og undanfarin áramót, samkvæmt upplýsingum Jónasar Ragnarssonar, sem heldur úti facebooksíðunni Langlífi.
Elst núlifandi Íslendinga er Þórhildur Magnúsdóttir, sem varð 107 ára 22. desember síðastliðinn, eins og sagt var frá í Morgunblaðinu.
Þar kom m.a. fram að afkomendur Þórhildar eru nærri 100 talsins. Fagnaði hún tímamótunum með fjölskyldu og vinum, en Þórhildur er enn vel ern og minnið gott. Að sögn Jónasar hafa 15 Íslendingar náð 107 ára aldri. Þá hafa síðustu hálfa aðra öld rúmlega 800 Íslendingar orðið 100 ára.
Næstelst Íslendinga í dag er Þórunn Baldursdóttir, 105 ára, Jóninna Margrét Pálsdóttir og Ingveldur Valdimarsdóttir eru 104 ára og Jóna Sigurðardóttir er 103 ára. Sex eru 102 ára, þeirra á meðal Þórður Jörundsson sem er elstur karla. Níu eru 101 árs og 23 eru 100 ára.
Átta af tíu elstu eiga heima í Reykjavík en aðeins einn þeirra er fæddur þar. Tveir einstaklingar af tíu elstu eiga maka á lífi, 95 ára og 96 ára. Þrjú úr þessum hópi áttu mæður eða systur sem náðu hundrað ára aldri.
Samkvæmt Langlífi eru rúmlega 30 Íslendingar 99 ára núna í árslok, sem Jónas segir vera nálægt meðaltali síðustu ára. Aldrei hafa fleiri náð 98 ára aldri, en þeir eru 65 í dag og því býst Jónas við að þeim sem ná hundrað ára aldri muni fjölga nokkuð á næstu árum.