Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hefur lokið aðgerðum við Reykjavíkurhöfn. Lögreglan hefur tekið við vettvanginum. Einn var sóttur úr bifreiðinni og fluttur á sjúkrahús.
Þetta segir Stefán Kristinsson, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Fyrr í dag var greint frá því að mikill viðbúnaður væri við Reykjavíkurhöfn vegna tilkynningar um bifreið sem fór í sjóinn.
Síðar var greint frá því að slökkviliðið hefði náð í einn úr bifreiðinni sem var fluttur á sjúkrahús. Gengið er út frá því að enginn annar hafi verið í bifreiðinni.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sagði í færslu áðan að rannsókn væri hafin á málinu og að ekki verði veittar frekari upplýsingar að svo stöddu.