Spáð er minnkandi norðaustlægri átt í dag, 5-13 m/s, golu eða kalda síðdegis.
Í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands segir að snjókomubakki yfir Suðurlandi þokist nú til vesturs og að það séu líkur á snjókomu á suðvesturhorninu fyrir hádegi.
Gul viðvörun er í gildi á Suðurlandi og Suðausturlandi vegna austan hvassviðris og hríðar. Viðvörunin gengur úr gildi klukkan 9 í dag.
Þá styttir upp og léttir víða til seinnipartinn, en áfram dálítil él norðan- og austantil.
Búast má við talsverðu frosti, eða á bilinu 4 til 21 stig. Kaldast verður inn til landsins.
„Þegar nýtt ár gengur í garð verður því kalt og rólegt veður víðast hvar á landinu og á höfuðborgarsvæðinu er því hætt við talsverðri flugeldamengun.“
Spáð er fremur hægri norðlægri átt á nýársdag, 5-13 m/s, og víða björtu og köldu veðri.