Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð til í dag vegna manns sem var í annarlegu ástandi.
Er lögreglu bar að garði kom í ljós að hann gat hvorki gert grein fyrir sér, né „séð um sig sjálfur“, líkt og kemur fram í dagbók lögreglu frá klukkan 5 í morgun til klukkan 17.
Var manninum „komið í skjól þangað til hann gæti bjargað sér sjálfur“.
Enginn gisti fangageymslu lögreglu þegar dagbókin var send fjölmiðlum en 64 mál bókuð í kerfum lögreglu á tímabilinu.
Meðal þeirra var minni háttar umferðaróhapp og ökumaður stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og áfengis.