Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir Ísland verða að taka virkan þátt í öryggis- og varnarsamstarfi og fordæma með afgerandi hætti hvers kyns brot á alþjóðlögum. Ísland skuli leitast við að efla enn frekar samstarf við önnur vestræn lýðræðisríki.
Þetta kom fram í fyrsta áramótaávarpi Kristrúnar sem forsætisráðherra.
„Í alþjóðlegu samhengi er staða Íslands góð. Við megum vera þakklát fyrir að búa við frið. En það eru viðsjárverðir tímar á alþjóðavísu og því fylgja alvarleg viðfangsefni fyrir stjórnvöld, hérlendis eins og annars staðar, sagði Kristrún.
Jafnframt að stríðsrekstur í okkar heimshluta minni á að öryggi og friður séu grundvallaforsenda frelsis og velmegunar.
„Við Íslendingar eigum allt okkar undir virðingu fyrir alþjóðlegum lögum og rétti fullvalda ríkja. Þess vegna verðum við að taka virkan þátt í öryggis- og varnarsamstarfi og fordæma með afgerandi hætti hvers kyns brot á alþjóðalögum,“sagði hún.
„Á næstu árum skulum við leitast við að efla enn frekar samstarf okkar við önnur vestræn lýðræðisríki – þar á meðal vinaþjóðir okkar á Norðurlöndum.“
Kristrún sagði jafnframt að fyrsta verk ríkisstjórnarinnar sé að koma á stöðugleika í efnahagsmálum og vinna að lækkun vaxta með styrkri stjórn á fjármálum ríkisins.
„Um leið er nauðsynlegt að rjúfa kyrrstöðu og auka verðmætasköpun í atvinnulífi.
Heimili og fyrirtæki hafa þegar gripið til aðgerða til að hagræða. Ríkisstjórnin mun gera það sama og á fyrsta vinnudegi nýs árs efnum við til víðtæks samráðs við almenning um hagsýni í ríkisrekstri,“ sagði hún.