Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, segir árið 2024 hafa markað tímamót fyrir sig.
„Ég byrjaði árið á kafi í vinnu eins og undanfarna áratugi þar sem málefni Grindvíkinga og kjarasamningar á almennum vinnumarkaði voru mér efst í huga.“
Hún segir allt hafa breyst þegar hún hafi ákveðið að gefa kost á sér í forsetaframboð vegna mikillar hvatningar og fjölda áskorana.
„Við tók ekki minni vinna en öðruvísi þar sem ég fékk það einstæða tækifæri að eiga stefnumót við þjóðina og hitta ótrúlegan fjölda fólks hringinn í kringum landið,“ ritar Katrín í færslu á Facebook.
„Þó að ekki hafi ég borið sigur úr bítum í kosningunum var ég stolt af minni baráttu og þakklát fyrir allt það frábæra fólk sem vann með mér í baráttunni,“ kemur enn fremur fram í færslunni.
Hún segir seinnihluta ársins hafa verið öðruvísi og falið í sér úrvinnslu, endurheimt og uppbyggingu. Allt hlutir sem hún hefur gefið sér lítinn tíma í á undanförnum árum og áratugum.
„Nú tekur við nýtt ár. Framundan eru spennandi verkefni sem ég brenn fyrir og hlakka til að sinna. En fyrst kveðjum við gamla árið og eins og undanfarin 17 ár þá gerum við á mínu heimili það með því að fagna afmæli miðjusonarins sem kom í þennan heim á gamlársdag 2007.“