„Okkar skylda er að huga að eigin vörnum“

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þó að Ísland sé friðsæl þjóð eru blikur á lofti í ekki svo friðsælum heimi. Okkar skylda er að huga að eigin vörnum og styðja við bandamenn í vörnum sínum, rétt eins og við ætlumst til að þeir gerðu væri á okkur ráðist,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í áramótgrein sem birtist í Morgunblaðinu í dag.

Hann segir alþjóðavæðingu óhjákvæmilega valda því að Íslendingar verði þátttakendur í stríði. Á ólgutímum þurfi þjóðin öflugt varnar- og öryggissamstarf við vinaþjóðir. Leggja þurfi áherslu á tengsl við önnur lönd, tryggja stuðning, samvinnu og áframhaldandi áherslu á gerð viðskiptasamninga.

Erindrekar hins opinbera alls ráðandi

Þá fer Bjarni yfir ákvörðun sína um að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu og niðurstöður kosninga sem hann segir sýna að sjálfstæðisstefnan hafi haldið velli með varnarsigri flokksins.

Hann segir nýja ríkisstjórn taka við góðu búi, staða ríkissjóðs sé sterk, langtímahorfur í hagkerfinu góðar og skuldahlutföll hófleg. Ríkisstjórnin sé hins vegar reynslulítil og einn stjórnarflokkanna byggi ekki á lýðræðislegu fyrirkomulagi. 

Stefnuyfirlýsing stjórnarinnar hjálpi lítið til að skilja hvað blasi við þeim sem eru úti í atvinnulífinu og þurfi hvatningu til að geta skilað sterku og blómstrandi atvinnulífi.

„Erindrekar hins opinbera verða alls ráðandi en skortur er á fólki sem þekkir af eigin raun lögmál atvinnurekstrar og mikilvægi hvetjandi umhverfis,“segir Bjarni.

Sjálfstæðisflokkurinn byggi sig upp utan stjórnar

Sjálfstæðisflokkurinn muni hins vegar rísa undir ábyrgð sinni og beita reynslu og styrkleikum sínum af þunga í stjórnarandstöðu.

„Sjálfstæðisflokkurinn mun byggja sig upp utan stjórnar á grunni sjálfstæðisstefnunnar með virku samtali við fólkið um allt land. Um leið ætlar flokkurinn að rækja leiðandi hlutverk sitt í stjórnarandstöðu af ábyrgð og festu, veita með því nýrri stjórn undir vinstri forystu aðhald.“

Greinina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert