Tungumálið fórnarlamb „misskilins rétttrúnaðar“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir það í raun kraftaverk að íslenska þjóðin skuli hafa varðveist sem einn hópur með sameiginlega tungu og menningu innan sömu náttúrulega landamæra í á annað þúsund ár.

Þetta kemur fram í áramótagrein hans sem birtist í Morgunblaðinu í dag.

Hann segir synd að íslensk stjórnvöld hafi ekki áttað sig á því að sterkt velferðarkerfi og opin eða lek landamæri fari ekki saman. Líkt og Norðurlandaþjóðirnar hafi verið að gera.

„Fólk hefur flust til landsins víða að úr heiminum og orðið fullgildir Íslendingar, orðið fjölskyldumeðlimir og vinir þeirra sem fyrir voru og gert samfélaginu mikið gagn. En þegar of margir flytjast til landsins of hratt og stjórnvöld telja jafnvel að samfélagið eigi að laga sig að þeim koma frekar en öfugt getur niðurstaðan aldrei orðið góð. Slíkt er engum til gagns og afleiðingarnar verða aldrei aftur teknar,“ segir Sigmundur

Þurfi að ræða málin af alvöru

Þegar samfélag sé jafn lítið og Ísland geti hlutir farið úrskeiðis mjög hratt. 

„Það er skylda okkar við kynslóðir liðinna alda, þær sem þraukuðu, byggðu upp landið og varðveittu þjóðina, og einnig við kynslóðir framtíðarinnar, að varðveita samfélagið.“

Hann veltir því upp hvort við séum farin að líta á árangur liðinna alda sem sjálfgefinn. Og jafnframt því hvort við höfum vilja til að varðveita fullveldið, lýðræðið og þjóðina. Ef svo sé þurfi að sýna það í verki.

„Við þurfum líka að leyfa okkur að ræða þessi mál af fullri alvöru. Umræða um þessi grundvallarmál, fortíð og framtíð þjóðarinnar, einkennist eins og önnur stjórnmál samtímans, um of af umbúðamennsku og ímyndarpólitík. Þess hefur jafnvel orðið vart að reynt sé að gera lítið úr afrekum fortíðar. Meira að segja tungumálið sjálft hefur orðið að fórnarlambi misskilins „rétttrúnaðar,““ segir Sigmundur.

Greinina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert