Halla Tómasdóttir hóf sitt fyrsta nýársávarp í embætti forseta á að þakka Íslendingum fyrir traustið sem þeir hafa sýnt forsetahjónunum.
„Ég vil sérstaklega þakka unga fólkinu og börnunum sem nálgast mig oft á förnum vegi og biðja um knús. Þið bræðið hjörtu okkar og við hugsum dag hvern um það hvernig hægt er að tryggja ykkur sem besta framtíð,“ sagði Halla.
Hún fór yfir víðan völl í ávarpi sínu, þar á meðal minntist hún á norræna samvinnu, jarðhræringarnar á Reykjanesi, Ólympíuleikana í París og þingkosningarnar.
Halla óskaði nýrri ríkisstjórn velfarnaðar og sagði það skref í rétta átt til jafnréttis að þrjár konur leiddu stjórnarmyndunina.
„Í stjórnmálum eins og hvarvetna er þörf á aukinni mýkt og mennsku í almennum viðhorfum og leit að lausnum. Þótt slík viðhorf séu oft tengd við konur, þá eru þau óháð kyni og mikilvægt að efla þau — ekki síður meðal drengja og karla.“