Andlát: Gylfi Pálsson

Gylfi Pálsson er látinn, 91 árs að aldri.
Gylfi Pálsson er látinn, 91 árs að aldri.

Gylfi Pálsson, skólastjóri, þýðandi og þulur, lést á Hjúkrunarheimilinu Eir 28. desember síðastliðinn, 91 árs að aldri.

Gylfi fæddist á Eyrarlandsvegi 24 á Akureyri 1. febrúar 1933, sonur Sigríðar Oddsdóttur símadömu og húsfreyju og Páls Sigurgeirssonar stórkaupmans í Braunsverslun og Vöruhúsinu. Gylfi var yngstur fimm systkina og eru þau öll látin. Eftir skólaskyldu, þegar Gylfi var 14 ára, fór hann í Menntaskólann á Akureyri og útskrifaðist þaðan sem stúdent 1952.

Árin eftir stúdentsprófin fóru í sjómennsku og vinnu á síldarplönum. Hann var til sjós á Aski RE 33, Jörundi frá Hrísey EA 335 og Harðbaki EA 3 og vann á síldarplönum, m.a. á Siglufirði og Raufarhöfn.


Gylfi stundaði nám við Háskóla Íslands og útskrifaðist árið 1963 með BA-próf í mannkynssögu og bókasafnsfræði ásamt prófi í uppeldis- og sálarfræðum til kennsluréttinda. Upp frá því átti menntun ungmenna hug hans allan. Hann var kennari við Réttarholtsskóla á árunum 1958-1966. Árið 1960 fluttist Gylfi með fjölskyldu sína í Mosfellssveit þar sem bjuggu þau til ársins 1998.

Skólastjóri frá 1966 til 1991

Árið 1966 varð Gylfi skólastjóri Gagnfræðaskólans að Brúarlandi, sem síðar varð Gagnfræðaskóli Mosfellssveitar/-bæjar, og gegndi því starfi til ársins 1991. Til að auka hæfni sína í menntamálum hafði hann starfsdvöl hjá Danmarks Radio, Undervisningsafdeling veturinn 1986 -1987. Gylfi þótti ætíð framsækinn en hann eignaðist eina af fyrstu einmenningstölvum sem komu til Íslands og nýtti hana bæði til gagns í skólamálum og við ritstörf.

Gylfi gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir sveitarfélagið á árunum sem hann var skólastjóri. Meðal annars var hann héraðsbókavörður Kjalarness og Kjósar árin 1966-1979. Þá var hann í yfirkjörstjórn Mosfellssveitar auk þess sem hann var skólastjóri Iðnskóla Reykjalundar á árunum 1962 til 1966. Þeirri menntastofnun var komið á fót að frumkvæði Árna Einarssonar þáverandi forstjóra Reykjalundar til að mennta fólk sem hafið veikst af berklum og þráði framhaldsmenntun og betri framtíðarmöguleika. Iðnskólinn var síðar sameinaður Gagnfræðaskólanum enda taldi Gylfi að ekki ætti aðgreina fatlaða frá ófötluðum.
Gylfi lauk afskiptum sínum af fræðslumálum þegar hann starfaði á Fræðsluskrifstofu Reykjanesumdæmis á árunum 1991-94, síðast sem forstöðumaður rekstrardeildar.


Gylfi var einnig leiðsögumaður og sótti fyrsta námskeið fyrir leiðsögumenn sem haldið var á Íslandi sem var á vegum Ferðaskrifstofu ríkisins árið 1963. Hann stundaði leiðsögn fyrir erlenda ferðamenn á sumrin næstu árin.


Gylfi var ekki síst kunnugur fyrir störf sín hjá ríkissjónvarpinu er hann var þýðandi og þulur margra fræðslu- og sjónvarpsþátta um dýralíf og sögu, hann starfaði þar frá upphafi sjónvarps á Íslandi til ársins 1991. Rödd Gylfa Pálssonar var kunnug öllum þeim sem horfðu á sjónvarp á þessum árum. Hann var þýðandi fjölmargra bóka til útgáfu og lestrar í útvarpi, fyrir Námsgagnastofnun, Sagafilm, Bergvík o.fl. Á síðustu árum fékkst hann við ritstörf og prófarkalestur.

Í stangveiði af lífi og sál

Gylfi var stangaveiðimaður af líf og sál. Er hann fluttist í Mosfellssveit varð hann veiðivörður bæði við Leirvogsá og Elliðaá. Komið hefur fram í viðtölum við hann að „þá gerðist eitthvað“ og hann varð heltekinn af veiðibakteríunni. Hann gegndi fjölda trúnaðarstarfa fyrir stangaveiðisamfélagið á Íslandi, var m.a. í stjórn Landssambands stangaveiðifélaga 1978-1986 og formaður 1985-1986. Þá var hann formaður Stangveiðifélagsins Ármenn 1981-1985 og var ritstjóri Veiðimannsins 1994-2001. Ætíð var hann félögunum innan handar ef þurfti að lesa yfir texta, semja texta eða hvað eina sem stangveiðifélögin þurftu á liðsinni hans að halda.

Uppáhaldsárnar sem Gylfi veiddi í um tíðina voru m.a. Elliðaárnar, Vatnsdalsá, Sogið, silungasvæðið í Laxá í Aðaldal, Fnjóská, Selá í Vopnafirði, auk þess sem vatnasvæði í Fljótum í Skagafirði átti hug hans allan. Síðust árin stundaði hann veiði af kappi í Hagaósi sem rennur úr Apavatni í Brúará. Síðustu veiðiferðina fór hann í júní 2023, þá rúmlega 90 ára.


Árið 1955 kvæntist Gylfi Steinunni Katrínu Theodórsdóttur meinatækni og áttu þau sex börn, Kristínu, Þóru, Snorra, Kára, Teit og Trausta. Steinunn lést árið 2020. Afkomendur Gylfa eru 29.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka