Sigtryggur Sigtryggsson
Árið 2024 var það kaldasta á þessari öld á Íslandi. Þetta er þveröfugt við stöðuna á jörðinni allri þar sem leiddar hafa verið að því líkur að 2024 verði hlýjasta ár sögunnar.
Trausti Jónsson veðurfræðingur segir á Moggablogginu að ársmeðalhitinn á Íslandi á nýliðnu ári standi í 3,4 stigum.
Það er -0,6 stigum neðan meðallags áranna 1991 til 2020. Hitinn er -1,0 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára. „Árið er því það kaldasta síðan 1998, en þá var sjónarmun kaldara en nú,“ segir Trausti.
Og bætir svo við: „Segja má að þetta sé því kaldasta ár allra íbúa landsins undir þrítugu (nema þeirra sem voru sérlega veðurnæmir fyrstu æviárin). Ritstjóri hungurdiska telur hins vegar 23 kaldari ár á sinni ævi – og nokkur með sama hita að auki.“
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.