Ekki var hægt að úrskurða Ólaf Ólafsson látinn þegar hann lést á aðfangadagskvöld, því engan lækni var hægt að ná í á Hvolsvelli.
Lík hans var geymt í herbergi á dvalarheimili yfir nótt áður en hann var fluttur á útfararstofu og hafði hann þá ekki enn verið úrskurðaður látinn.
Afabarn Ólafs segir stöðuna ólíðandi.
Ólafur lést hundrað ára að aldri á aðfangadagskvöld á dvalarheimilinu Kirkjuhvoli á Hvolsvelli þar sem hann hafði dvalið síðustu ár.
„Hann veiktist um miðjan desember og það var alveg útséð hvert það væri að fara, að veikindin myndu enda með þessum hætti. Það var bara spurning hvenær það yrði,“ segir Bjarki Oddsson, sveitarstjórnarfulltrúi í Rangárþingi eystra og afabarn Ólafs, í samtali við mbl.is.
„Svo kemur að þessu að hann deyr og það er þá sem að kerfið klikkar, það var enginn læknir. Hjúkrunarheimilið vissi ekki einu sinni að það væri enginn vaktlæknir.“
Bjarki segir að afi hans hafi verið geymdur í herbergi á dvalarheimilinu yfir nóttina og að fjölskyldan hafi fengið þær upplýsingar að hugsanlega væri hægt að úrskurða Ólaf látinn á jóladag, eða annan dag jóla.
„Það átti ekkert að vera læknir daginn eftir heldur, bara næsta virka dag,“ segir Bjarki.
Fór svo að Ólafur var fluttur af dvalarheimilinu á útfarastofu á jóladag, án þess að hann hefði verið úrskurðaður látinn.
Bjarki segir að gagnrýni fjölskyldu hans snúi ekki að dvalarheimilinu, enda hafi allt verið gert fyrir þau þar. Heldur sé um að kenna skorti á læknisþjónustu í bænum.
„Ef þetta hefði verið veikt barn þá hefði þetta verið töluvert dramatískara en staðan samt sem áður ólíðandi.“
Bjarki vakti fyrst athygli á málinu í aðsendri grein á Vísi.