Veganúar er hafinn að nýju en þetta er í ellefta sinn sem áskorunin er haldin hér á landi.
Um er að ræða áskorun sem Samtök grænkera á Íslandi (SGÍ) stendur fyrir í janúar ár hvert.
Markmiðið er að vekja fólk til umhugsunar um áhrif neyslu dýraafurða og kynna kosti grænkerafæðis fyrir heilsu, umhverfi og dýravernd.
„Það kemur mér ótrúlega fallega og skemmtilega á óvart hversu margir eru búnir að skrá sig núna og það er annar janúar,“ segir Aldís Amah Hamilton, nýkjörinn formaður SGÍ, í samtali við mbl.is.
Aðspurð segir hún flesta þátttakendur skilgreina sig sem alætur, þá sé fólk einnig að taka þátt sem skilgreinir sig sem pescaterian, grænmetisætur og vegan.
„Það sem er dásamlegt er að það er fjölbreytni í kynjahlutfalli,“ bætir Aldís við.
Aldís segist telja herferð SGÍ Enginn á að vera hryggur um jólin líklega eiga þátt í fjölda skráninga. Herferðin hafi vakið mikla umræðu um aðbúnað dýra í svokölluðum verksmiðju búskap, eða þauleldi.
Þá segir hún skipuleggjendur taka áhuganum fagnandi sama hvernig hann kemur til.
„Það virðist vera tekið mjög vel í veganúar og við tökum því fagnandi sama hverjar aðstæðurnar eru.“
Þá kveðst Aldís mjög ánægð að sjá þessar tölur.
„Þetta eru algjörlega tölurnar sem við vonuðumst eftir. Við höfum óbilandi trú á veganúar.“
Merki veganúar 2025 er teiknað af Herdísi Hallgrímsdóttur en hún notast við listamannanafnið Illustradis. Hún er grafískur hönnuður og hefur sjálf verið vegan frá árinu 2016.
Hugmyndina segir Herdís hafa komið fram eftir mikið heilabrot. Ofurhetjan Vera Vegan sé innblásin af sígildum teiknimyndasögu ofurhetjum líkt og Wonder Woman og Wanda Vision.
Vera Vegan berst fyrir umhverfisvernd og dýravelferð. Hún segir Veru vera jákvæða og sterka birtingarmynd veganisma.
Hefur þú einhver ráð fyrir byrjendur í vegan mataræði?
„Í fyrsta lagi myndi ég hvetja fólk til að skrá sig í Veganúar,“ svarar Aldís og segir fréttabréf sent til þátttakenda að lágmarki vikulega sem sé uppfullt af fróðleik. Þar megi til að mynda finna uppskriftir og næringarfræðileg ráð frá löggildum næringarfræðingi.
„Þannig að fólk ætti að fá rosalega mikið af góðum ráðum þar.“
Þá bendir hún á Vegan Ísland Facebook-hópinn þar sem öllum er velkomið að leita ráða.
Hún segist sjálf hafa verið, eins og flestir Íslendingar, mikill ostaaðdáandi. Hún hafi tekið ost alveg út úr mataræðinu í nokkra mánuði áður en hún svo tók inn vegan ost.
„Það eru margir sem tala um að þetta sé mjög góð leið til að endurstilla bragðlaukana sína og líka til að maður sé ekki endilega alltaf í samanburði útaf því að auðvitað er þetta ekki sama varan.“
Þá segir hún veganisma og veganúar ekki snúast um fullkomnun.
„Það er hægt að byrja sína vegferð hvenær sem er. Auðvitað er skemmtilegast að byrja í veganúar því þá er mesti stuðningurinn og mesta utanumhaldið. Fólk ætti ekki að hugsa þetta sem svo að ef þau taka eitthvað feilspor í sinni áskorun að þá ætti það að hætta. Bara halda áfram og dusta af sér og sjá hvort þetta sé ekki eitthvað sem gæti orðið langtíma breyting,“ segir Aldís.
Aldís bendir einnig á að gott sé að fylgjast meðvitað með hvaða breytingar verði í líkamanum eftir nokkrar vikur af vegan mataræði. Flestir upplifi mjög jákvæðar breytingar.
„Fylgjast með líkamlegri vellíðan og leyfa því svolítið að vera hvatningin,“ segir Aldís.