Vatn úr farvegi Hvítár í Árnessýslu, nærri bænum Brúnastöðum í Flóa, flæðir nú yfir bakka árinnar og leitar út í áveituskurð sem þarna liggur. Mynni skurðarins er stíflað vegna íss og flóðgátt í honum lokað. Því rennur vatn á yfirfalli árinnar þarna inn í skurðinn. Þetta hefur verið að gerast á síðasta klukkutímanum eða svo. Framvindan er hröð.
„Áin er bakkafull og ísilögð,“ segir Ágúst Ingi Ketilsson, bóndi á Brúnastöðum í Flóa. Kuldakastið síðustu daga hefur myndað ísstíflu í Hvítá, hvar hún rennur austan við Hestfjall í Grímsnesi og þar svo til vesturs sunnan við fjallið. Ís er raunar víðar í ánni á þessum slóðum og ástandið nú er ekkert sem kemur staðkunnugu fólki á óvart.
Vatnshæðarmælir Veðurstofu Íslands í Hvítá við Brúnastaði sýnir merki um stíflumyndun, sbr. að yfirborð árinnar stendur mjög hátt nú. Brunagaddur er á svæðinu sem væntanlega mun haldast næstu sólahringa, samkvæmt spám.
„Vatnið fer út í áveituskurðinn sem er fullur af klaka og stíflur gætu verið víða. Í raun er áveitan eins og æðakerfi um allan Flóann, sem er mjög stórt svæði. Stíflur í skurðunum geta því orðið til þess að vatn flói yfir landið, eins og oft hefur gerst,“ segir Grétar Einarsson, verkstjóri hjá Vegagerðinni, sem er á vettvangi.