Karlmaður á fimmtugsaldri hefur verið ákærður fyrir að verða hjónum á áttræðisaldri að bana á heimili þeirra í Neskaupstað í ágúst.
Ákæran var send til Héraðsdóm Austurlands þann 20. desember og verður málið þingfest í Héraðsdómi Austurlands í næstu viku.
Í ákærunni segir að maðurinn hafi veist að hjónum innandyra með hamri og hafi slegið þau bæði oft með hamrinum, einkum í höfuð, allt með þeim afleiðingum að þau hlutu bæði umfangsmikla og alvarlega áverka á höfði, þar á meðal ítrekuð brot á höfuðkúpum, áverka á heila og smærri áverka á öðrum hlutum líkama, en hjónin létust bæði af völdum áverka á höfði.
Þá er maðurinn einnig ákærður fyrir vopnalagabrot fyrir að hafa haft í fórum sínum utandyra við Kaupvang á Egilsstöðum hníf með 15 sentímetra blaðlengd.
Þess er krafist að maðurinn verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Til vara er þess krafist að honum verði gert að sæta vistun á viðeignandi stofnun og að honum verði gert að greiða allan sakarkostnað.
Hann er krafinn um 48 milljónir króna í miskabætur og tæpar 3 milljónir króna í skaðabætur vegna kostnaðar við útför hjónanna og þrifa.
Maðurinn verður áfram vistaður á viðeigandi stofnun en dómari hefur fallist á kröfu um vistun til 14.mars.
Í gögnum málsins kemur fram að maðurinn hafi viðurkennt við yfirheyrslur að hafa verið á heimili hjónanna í Neskaupstað en neitaði að hafa verið valdur að dauða þeirra. Þau hafi þegar verið látin. Útskýringar hans á því hvers vegna hann hafi ekki tilkynnt um slasað eða látið fólk þóttu ekki trúverðugar.
Að sögn vitna sást maðurinn við hús hjónanna að kvöldi 21. ágúst og segjast vitni skömmu síðar hafa heyrt „þung bank-högg“ úr íbúðinni. Sjúkraflutningamenn komu fyrstir á vettvang og greindu lögreglunni frá því að fólkið væri greinilega látið.