Oddhvöss vopn reyndust vera billjardkjuðar

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglunni sem sinnir verkefnum í Kópavogi og Breiðholti var tilkynnt um einstakling í annarlegu ástandi með oddhvöss vopn meðferðis.

Lögreglan hafði uppi á honum og reyndist hann vera með tvo billjardkjuða. Vegna ástands hans var lagt hald á kjuðana en honum var tilkynnt að hann gæti nálgast þá þegar ástand hans yrði skárra.

Sprengdu flugeld inni í sameign

Lögreglunni í sama umdæmi var tilkynnt um hóp ungmenna sem hafði sprengt flugeld inni í sameign og olli það minniháttar tjóni.

Einnig var tilkynnt um líkamsárás í sama umdæmi. Einn var handtekinn á vettvangi og er málið í rannsókn, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til kl. 5 í morgun. Alls eru 35 mál bókuð í kerfum lögreglunnar á tímabilinu. Eitthvað var um tilkynningar um ungmenni að fara óvarlega með flugelda.

Stal vegabréfum og greiðslukortum

Lögreglunni á Hverfisgötu í Reykjavík var tilkynnt um þjófnað á vegabréfum og greiðslukortum. Við rannsókn málsins fundust verðmætin og einn var kærður, grunaður um þjófnað og húsbrot.

Ljósmynd/Colourbox

Ökumaður í umdæmi lögreglunnar í Hafnarfirði og Garðabæ var stöðvaður vegna hraðaksturs. Hann mældist á 128 km hraða þar sem leyfilegur hámarkshraði er 80 km/klst.

Lögreglunni á Vínlandsleið barst tilkynning um laus hross. Leit bar ekki árangur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka