Einhver hláka er í veðurkortunum í dag og á morgun. Þetta segir Jóhanna Malen Skúladóttir, náttúruvásérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Gera má ráð fyrir ísstíflum í ám í ljósi kuldatíðar sem hefur verið um land allt.
Þó sé einhver hláka í dag og á morgun og því líkur á að stíflur minnki. Kólna taki þá aftur um helgina.
„Þetta er bara viðvarandi ástand sem á það til að vera viðvarandi um veturna á íslandi,“ segir Jóhanna.
Aðspurð hvort hlýnun í veðri hafi ollið áhyggjum um að vatn taki að flæða segir hún: „Þetta er bara mjög róleg hláka og stutt þannig að við höfum ekki áhyggjur af því.“
Um sé að ræða hefðbundið vetrarástand í ám, líkur séu á áframhaldandi ísstíflumyndun og möguleiki á krapaflóðum.
„Við fylgjumst bara með því en eins og staðan er núna þá er þetta bara svona eðlilegt vetrarástand en ekkert til þess að hafa miklar áhyggjur af.“