Andlát á hjúkrunarheimili ekki alvarlegt tilfelli

Díana Óskarsdóttir, forstjóri HSU, segist skilja að aðstandendur séu ósáttir.
Díana Óskarsdóttir, forstjóri HSU, segist skilja að aðstandendur séu ósáttir. Samsett mynd

Díana Óskarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU), segir alltaf lækni vera á bakvakt á heilsugæslunni í Rangárþingi sem sinni alvarlegum tilfellum, en andlát á hjúkrunarheimili falli ekki undir þá skilgreiningu.

Því hafi ekki verið kallaður út læknir til að staðfesta andlát Ólafs Ólafssonar eftir að hann lést á dvalarheimilinu Kirkjuhvoli á aðfangadagskvöld, líkt og greint var frá á mbl.is.

Díana segist þó skilja að aðstandendum þyki upplifunin óþægileg og að þeir séu ósáttir.

Segir komið í veg fyrir ráðningu lækna

Bjarki Oddsson, sveitarstjórnarfulltrúi í Rangárþingi eystra og afabarn Ólafs, hefur gagnrýnt að enginn læknir hafi verið til taks til að úrskurða um andlátið. Lík Ólafs var geymt í herbergi á dvalarheimilinu yfir nótt en á jóladag var hann fluttur á útfararstofu án þess að hafa verið úrskurðaður látinn.

Í grein sem Bjarki ritaði á Vísi.is segir hann lækna hafa lýst því að stjórnendur HSU hafi með undirboðum komið í veg fyrir að læknar fáist til starfa í Rangárþingi. Hann spurði jafnframt hvernig það gæti staðist að enginn læknir væri tiltækur svo dögum skipti yfir jól og áramót.

Díana segir þetta ekki rétt. „Eftir lokun á heilsugæslustöð er læknir á bakvakt og þeir sinna alvarlegum atvikum sem koma upp. Með þeim er líka sjúkraflutningafólk á svæðinu sem er menntað til að aðstoða í slíkum aðstæðum. Þannig við erum aldrei með ekkert viðbragð á staðnum.“

Leita til erlendra ráðningarskrifstofa

Það hafi hins vegar gengið illa að manna fastar stöður lækna á heilsugæslunni í Rangárþingi og því hafi tveir verktakalæknar sinnt sjúklingum að mestu leyti síðustu tvo mánuði.

„Við erum leggja okkur fram um að styrkja heilbrigðisþjónustuna í Rangárþingi, við leggjum mikinn metnað í það og vinnum hörðum höndum að því að leita að föstum læknum til starfa á stöðinni. Við erum með auglýsingar í gangi þar sem við erum að bjóða húsnæði, við höfum verið í samtali við sveitarstjórnirnar sem tala um að ekkert mál sé að tryggja leikskólapláss og við erum í samtali við ráðherra vegna einhverra ívilnana sem væri hægt að grípa til. Þannig við erum svo sannarlega að leita leiða til að fá lækna til starfa,“ segir Díana. 

Einnig sé verið að leita til erlendra ráðningarskrifstofa og von sé á dönskum verktakalækni til starfa næstunni.

Hún segir aðstæður hafa verið fljótar að breytast og fastráðnir læknar á heilsugæslunni hafi hætt störfum af persónulegum ástæðum. 

„Það er ekki langt síðan við vorum með tvö og hálft stöðugildi mannað á stöðinni hjá okkur, en við erum við að treysta á verktakalækna um þessar mundir.“

Díana tekur fram að öll önnur mönnun á heilsugæslunni sé til fyrirmyndar. „En eðlilega erum við uggandi þegar ekki er festa í læknamönnun á staðnum.“

Mismunandi verklag á hjúkrunarheimilum

Hvað viðveru lækna varðar bendir hún á að vaktir að lokinni dagvinnu á heilsugæslu á landsbyggðinni séu þannig skilgreindar að kallað sé á þær við lífsógnandi aðstæður. 

Hún hafi fullan skilning á að aðstandendur vilji fá úrskurð um andlát. Það hafi hins vegar verið erfitt þar sem um hátíðarnar hafi aðeins verið læknir á bakvakt til að sinna lífsógnandi aðstæðum, sem ekki hafi verið til staðar í þessu tilfelli. 

„Okkur þykir það miður, þessi upplifun er ekki góð, en við höfðum ekki tækifæri til að sinna þessu. Við erum með hjúkrunarfræðinga á þessum stöðum, þó þau staðfesti ekki með skjalinu, þá vita þau hvað er í gangi, þannig það var ekki verið að kalla lækni út til að koma að lífsbjörg.“

Díana segir að mismunandi verklag sé viðhaft á hjúkrunarheimilum þegar andlát verður. Sum hjúkrunarheimili séu jafnvel með samninga við lækna sem sinni meðal annars slíkum tilfellum. Þá sé það stundum gert þannig að komið sé við á sjúkrahúsi til að staðfesta andlát á leið á útfararstofu eða í líkhús.

Mögulega þurfi þó að endurskoða kerfið, með tilliti til þess hvernig eigi að bregðast við ef þjónustan er ekki til staðar, eins og á hátíðisdögum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert