21 árs gamall Íslendingur, Björn Ívar Jónsson, var fórnarlamb fólskulegrar árásar fyrir utan veitingastað í Liverpool skömmu eftir miðnætti á miðvikudag.
Þetta kemur fram á Vísi. Er þar haft eftir föður Bjarnar, Jóni Erni Stefánssyni, að Björn sé staddur í Liverpool til að fara á leik Liverpool og Manchester United á sunnudag.
Atvikið hafi borið að með þeim hætti að Björn var að yfirgefa veitingastað þegar ráðist var á hann með þeim afleiðingum að hann missti meðvitund eftir höfuðhögg.
Er Björn sagður hafa lent í öndunarvél fyrst eftir atvikið en hann sé nú á batavegi og hafi verið útskrifaður af sjúkrahúsi.
Í frétt Liverpool Echo um málið segir að sjö hafi verið handteknir vegna málsins og séu sex hinna grunuðu táningar á aldrinum 15-18 ára. Elstur sé hins vegar 38 ára gamall maður frá Bootle á Stór-Manchestersvæðinu.
Þá segir að myndbandsupptökur beri með sér að árásin hafi verið af tilefnislausu.