Kosningaloforð Ingu til vandræða

Afdráttarlaus loforð og stefnumið Flokks fólksins – hvort heldur er í kjaramálum, Evrópumálum eða um strandveiði – munu reynast flokknum erfið gagnvart kjósendum sínum og raunar ríkisstjórninni allri, hvort heldur þau eru efnd eða vanrækt.

Viðmælendur Dagmála telja að stjórnarandstaðan muni ekki þreytast á að minna Flokk fólksins á stefnu hans í Evrópumálum, sem hafi verið látin lönd og leið fyrir ráðherrastóla. Ekki síður eigi það þó við um bókun 35 við EES, sem þingmenn flokksins hafi lýst sem stjórnarskrárbroti, en ráðgeri nú að styðja.

„Þremur vikum fyrir kosningar segir flokkur Fólksins […] að hann muni ekki taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu um að halda viðræðunum áfram. Þeir séu á nóti aðild almennt og muni aldrei styðja bókun 35,“ bendir Björn Ingi Hrafnsson blaðamaður á, en nú sé annað hljóð komið í strokkinn.

Björn Ingi og Þórður Gunnarsson hagfræðingur eru viðmælendur Dagmála, en í þættinum er farið yfir ástand og horfur í stjórnmálum á nýju ári. Dagmál er streymi Morgunblaðsins á netinu, sem opin eru öllum áskrifendum.

Strandveiðar sýnd veiði

Hið sama segja þeir eiga við um fjárfrekar ráðagerðir Flokks fólksins um kjarabætur til aldraðra, öryrkja, og efnaminna fólks, sem sagðar hefðu verið ófrávíkjanleg skilyrði stjórnarþátttöku flokksins, en Inga Sæland féll frá þeim í stjórnarmyndunarviðræðum.

Hins vegar standi til að breyta fyrirkomulagi strandveiða til þess að koma til móts við Flokk fólksins, en það sé ekki vandkvæðalaust. 

„Strandveiðarnar eru mál, sem ég á eftir að sjá hvernig þau munu leysa,“ segir Þórður. Talað sé um allir, sem stundað hafi strandveiðar, fái sína 48 daga til róðra, sem kalli á mun meiri aflaheimildir.

„Ef þessir 560 eða 570 bátar, sem voru á strandveiðum síðasta sumar, voru sex vikur að klára þessi 12 þúsund tonn á helmingi veiðitímans, þá getum við gert ráð fyrir því að ef það á að tryggja að það allir komist sína 48 daga þá þarf a.m.k. að tvöfalda það magn,“ segir Þórður.

„Hvar ætla menn að fá það?“ spyr Þórður og segir aðeins tvo kosti þess: Að fara umfram ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar, sem hann telur mjög ólíklegt. Þá sé aðeins hin leiðin eftir, að taka þetta af þeim sem eru með þessar aflaheimildir núna. Það orki afar tvímælis og grafi undan stjórnarstefnunni að öðru leyti.

Ráðist gegn verðmætasköpun

„Það eru þessi sömu fyrirtæki, sem eiga núna að fara að greiða „réttlát afnotagjöld“ þannig að sá skattstofn dregst saman á móti,“ segir Þórður og kveðst bíða eftir að Kristrún Frostadóttir skýri hvernig sú jafna gangi upp.

„Þarna er ráðist gegn verðmætasköpun og ráðist gegn arðsemi greinarinnar, en [Kristrún] margoft sagt að öflugt atvinnulíf sé forsenda þess prógramms sem hún ætlar að keyra næstu fjögur ár.“

Björn Ingi tekur undir þetta og erfitt sé að sjá hvernig þetta komi heim og saman við fullyrðingar um að ríkisstjórnin ætli ekki að raska kvótakerfinu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert