Lottóvinningshafi enn ófundinn

Lýst er eftir lottómiða með 10 milljóna króna vinningi.
Lýst er eftir lottómiða með 10 milljóna króna vinningi. mbl.is/Karítas

Ef þú hefur gleymt að skoða lottómiðann þinn sem keyptur var í byrjun síðasta mánaðar er tímabært að gera það núna.

Íslensk getspá lýsir nú eftir vinningshafa frá 7. desember sem að öllum líkindum er ekki meðvitaður um að hann hafi unnið tæpar tíu milljónir króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslenskri getspá.

Miðinn var keyptur í Skálanum á Þorlákshöfn.

Vinningstölurnar voru 5, 6, 7, 8 og 32. Allir sem keypt hafa lottómiða í Skálanum á Þorlákshöfn í byrjun desember eru hvattir til að skoða miðana sína vel, þar gætu leynst vinningstölur að andvirði tæplega 10 skattfrjálsra milljóna.

Ógleymanlegt símtal

Íslensk getspá hringdi á dögunum og tilkynnti vinningshafa að miðinn sem hann keypti í gegnum lottóappið fyrir úrdráttinn 28. desember hafi fært honum rúmlega 11,7 milljónir króna skattfrjálst.

Maðurinn, sem þá var staddur í vinnunni, trúði varla símtalinu og var viss um að vinnufélagarnir gerðu grín að sér.

Þá sagði hann tilfinninguna algjörlega ólýsanlega: „Fyrsta verk verður að greiða niður smá skammtímaskuldir og láta lagfæra eina tönn sem setið hefur á hakanum en svo verður líka einhverju smá eytt í vitleysu“ sagði sá heppni með bros á vör.

Starfsfólk Getspár óskar vinningshafanum innilega til hamingju og þakkar um leið veittan stuðning sem skiptir gríðarlega miklu máli fyrir fatlað fólk, sem og íþrótta- og ungmennafélögin í landinu þar sem þau njóta góðs af allri sölu Lottó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert