Lögreglunni á Hverfisgötu barst tilkynning um slys þar sem ungmenni hafði skorið sig.
Í ljós kom að múrsteini hafði verið kastað í gegnum rúðu og skáru rúðubrotin ungmennið sem sat þar inni.
Málið er í rannsókn, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gærkvöldi til kl. 5 í morgun.
Ökumaður bifreiðar var stöðvaður í umferðinni í Reykjavík en bifreiðin hafði verið tilkynnt stolin. Einstaklingarnir tveir sem voru í bifreiðinni gáfu mismunandi sögur um af hverju þeir væru í henni, sem stemmdu ekki. Þeir voru handteknir og vistaðir í fangaklefa vegna málsins. Þeir reyndust einnig vera með fíkniefni meðferðis.
Tilkynnt var um krakka að kasta flugeldum á aðra við Hraunvallaskóla í Hafnarfirði. Krakkarnir voru farnir þegar lögreglan kom á vettvang.
Einnig var tilkynnt um krakka að kveikja í og setja flugelda í ruslatunnu í Mjóddinni. Eldur kom upp í ruslatunnunni en hann var slökktur með slökkvitæki.
Ökumaður var stöðvaður af lögregluninni sem annast verkefni í Kópavogi og Breiðholti, grunaður um að vera undir áhrifum lyfja. Hann var jafnframt með ungt barn í bifreiðinni. Ökumaðurinn var látinn laus að lokinni blóðsýnatöku.
Lögreglunni á Vínlandsleið var tilkynnt um ökumann sem ók á þann sem tilkynnti um málið og ók síðan á brott. Haft var uppi á ökumanninum brotlega og reyndist hann ölvaður. Hann var vistaður í fangaklefa þar til hægt verður að taka framburð af honum.