Vatnshæðarmælir Veðurstofunnar á stíflu Flóaáveitunnar nærri Brúnastöðum í Flóahreppi sýndi í gærkvöldi að vatnshæðin var orðin meiri en hæð stíflunnar og því var farið að flæða yfir hana.
Er þetta mesta vatnshæð sem mælst hefur á þessum stað frá því að mælingar hófust árið 2009, að því er segir í tilkynningu Veðurstofunnar.
Frá 30. desember hefur ísstífla verið að byggjast upp í Hvítá nærri Brúnastöðum og Flóaáveituskurðinum.
Vatn byrjaði að flæða upp úr árfarveginum síðdegis í gær. Rennur vatn bæði meðfram og yfir inntak Flóaáveituskurðsins. Hluti vatnsins rennur yfir Brúnastaðaflatir.
„Veðurspá gerir ráð fyrir auknu frosti um helgina sem getur haft áhrif á þróun ísstíflunnar. Flóðahætta gæti aukist við skyndilegar veðurbreytingar eða áframhaldandi hækkun vatnshæðar,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.
Veðurstofan segir að erfitt sé að spá fyrir um hver þróunin verði. Áfram verði vel fylgst með aðstæðum.
Vegna kólnandi veðurs fram undan er líklegt að áfram verði ísmyndun í ánni. Þó er mögulegt að áin finni sér farveg undir ísinn og bræði hann jafnt og þétt af sér, segir í tilkynningu.
„Ef snöggar breytingar verða í veðri á meðan ísstífla er enn í ánni getur skapast aukin flóðahætta á svæðinu.“
Það geti þýtt að vatn flæði yfir vegi sem liggja heim að bænum nærri ánni. Ef vatnshæð heldur áfram að hækka í Flóaáveituskurðinum gæti það valdið vandræðum á Þjóðvegi 1 austan við Selfoss.