Ríkisstjórnin hélt óformlegan vinnufund á Þingvöllum í dag sem fór í að samstilla ráðherra stjórnarinnar. Forgangsröðun verkefna var á dagskrá, hverju er hægt að koma hratt í gegn og hvað tekur lengri tíma.
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir vinnudaginn hafa verið góðan þar sem verkefnin fram undan voru rædd.
„Það skiptir bara máli að samstilla alla sem sitja í ríkisstjórninni. Það er ýmislegt sem er búið að fara okkar á milli í viðræðum okkar þriggja formannanna. Við erum að nýta fyrstu dagana í að fara yfir hvernig við munum framkvæma stefnu stjórnarinnar og vinna að vorþinginu,“ segir Kristrún í samtali við mbl.is.
„Við erum að forgangsraða hvað við getum gert hratt og hvað tekur lengri tíma,“ segir Kristrún jafnframt.
Getur þú nefnt hvað þið getið gert hratt og hvað tekur lengri tíma?
„Þetta er allt enn þá í vinnslu og við munum sýna á spilin þegar þingmálaskráin kemur út. Það styttist í að þing verði sett og það verður vonandi gert undir lok þessa mánaðar. Þingmálaskrá þarf náttúrulega að birtast fyrir þann tíma,“ segir Kristrún.
Eðli málsins samkvæmt verði þau mál sem eru á þingmálaskrá fyrir vorið fyrstu mál ríkisstjórnarinnar og það séu þau mál sem ríkisstjórnin telur sig geta beitt sér hratt fyrir.
Frekar er lögð áhersla á færri mál sem hægt verður að klára á vorþingi, heldur en fleiri mál sem óvissa ríkir um hvenær klárast.
„Það verður ýmislegt þarna sem verður kunnuglegt og við höfum kannski kynnt til sögunnar í viðtölum í tengslum við þessa stjórnarmyndun og eftir að við tókum við, til að mynda bráðaaðgerðir í húsnæðismálum,“ segir Kristrún.
„Svo er auðvitað verið að reyna að styrkja meðferðarúrræði í landinu og fleira. Það eru svoleiðis verkefni sem við erum að horfa á en það er líka ýmislegt fleira sem kemur í ljós á næstu vikum.“