Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli á Akureyri var loksins opnað í morgun, í fyrsta skipti í vetur, við mikinn fögnuð skíðafólks fyrir norðan. Ekki hefur verið hægt að opna skíðasvæðið fyrr en nú vegna snjóleysis, en svæðinu er nánast að fullu haldið gangandi á snjóframleiðslu.
Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður Hlíðarfjalls, segir daginn hafa farið vel af stað og telur að um 1.100 til 1.200 gestir hafi verið á skíðasvæðinu í dag, sem teljist nokkuð gott.
„Við höfum bara verið að framleiða snjó og fólk hefur verið að bíða spennt. Venjulega náum við að opna fyrst af skíðasvæðunum, eða með þeim fyrstu, en þetta hefur verið pínu spes vetur fram að þessu,“ segir Brynjar.
Hann gleðst yfir því að loksins sé hægt að skíða í Hlíðarfjalli, enda sé það eitt skemmtilegasta sem hann geri. Þá sé veðrið gott, sem spilli ekki fyrir.
„Það er frost og stilla, bara rosa fínt. Við gætum ekki beðið um betra skíðaveður.“
Hann segir spána framundan vera ágæta með tilliti til skíðaiðkunar, þó úrkoman mætti vera meiri.
„En við munum halda áfram að framleiða snjó eins og við getum. Við erum að skíða á held ég um 90 prósent framleiddum snjó. Það hefur ekkert snjóað að ráði.“