Vatnshæðin í Hvítá hefur lækkað örlítið frá því í gær, en náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir breytingarnar svo litlar og hægar að ekki sé hægt að lesa neitt í þær núna.
Enn sé verið að fylgjast með mælum og beðið er eftir myndum frá lögreglunni á Suðurlandi sem væntanlega berast síðar í dag. Þá verði mögulega hægt að meta stöðuna betur.
Frá 30. desember hefur ísstífla verið að byggjast upp í Hvítá nærri Brúnastöðum og Flóaáveituskurðinum, en vatn fór að flæða upp úr árfarveginum síðdegis í fyrradag. Hefur vatnið runnið bæði meðfram og yfir inntak Flóaáveituskurðsins. Þá rennur hluti vatnsins yfir Brúnastaðaflatir.
Vatnshæðin hefur ekki mælst hærri á þessum stað frá því mælingar hófust árið 2009.
„Það eru engar breytingar í þessu hjá okkur eins og við sjáum núna, þannig það er lítið sem við getum gert þangað til við sjáum myndir af svæðinu. Við gerum ráð fyrir að áin flæði örlítið yfir bakkana, en það lækkar mjög rólega vatnshæðin. Þetta eru afskaplega litlar breytingar,“ segir Steinunn Helgadóttir, náttúrvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
„Þetta segir okkur ofboðslega lítið á þessari stundu. Það er rosalega kalt, mikið frost á svæðinu, þannig líkurnar á því að þetta fari að losna eru litlar, allavega ekki á ofsafenginn hátt.“
Lækki vatnsborðið þýðir það þó að vatn kemst undir ísstífluna.
„Þá lækkar yfirborðið á vatninu ofan við stífluna. En þetta eru það litlar breytingar að við erum ekki mikið að lesa í þetta,“ ítrekar Steinunn.
Hún gerir ráð fyrir að myndir berist frá lögreglunni síðar í dag, bæði ljósmyndir og drónamyndir