Svipuð staða er á vatnshæð í Hvítá og var fyrr í dag. Vatnshæðin er komin rétt fyrir neðan hæðina á stíflu Flóaáveitunnar og búist er við svipaðri stöðu á morgun.
Þetta upplýsir Steinunn Helgadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Nefnir hún að lögreglan á Suðurlandi hafi sent Veðurstofunni myndir af stíflunni um klukkan 16 í dag.
„Þær sýna að það er bara örlítið minna vatn að renna fram yfir bakkana þannig þetta er svipuð staða og við búumst við því að þetta verði svona á morgun líka miðað við frostið,“ segir Steinunn og bætir við:
„Það er svona óbreytt staða nema kannski mögulega örlítið meira vatn að komast undir stífluna sem veldur lækkun á vatnsborðinu hinum megin við mælinn.“
Þá segir hún að frosti sé spáð út vikuna og því gætu mögulega ekki orðið neinar breytingar fyrr en undir lok vikunnar en tekur hún þó fram að það sé erfitt að segja til um það svo langt fram í tímann.