Rúmlega 1.800 tillögur hafa nú borist frá almenningi um hagræðingu í rekstri ríkisins, rúmum tveimur sólarhringum eftir að opnað var fyrir innsendingar í samráðsgátt stjórnvalda.
Tillögurnar eru af ýmsum toga en margir velja þann kost að hafa sína tillögu ekki aðgengilega almenningi. Aðrir hafa ekkert að fela, eru á persónulegu nótunum og deila jafnvel persónulegri reynslu til að gera tillögu sinni betur skil.
Framhaldsskólakennari ávarpar til að mynda Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra persónulega með sinni tillögu og óskar henni til hamingju með nýju stjórnina.
Kennarinn kemur með tillögu um að fækka ferðum til ráðamanna til útlanda og nota í staðinn tæknina, eins og teams, skype og messenger til að eiga í samskiptum. Þá vill hún sjá meira aðhald í sambandi við veisluhöld; sleppa vínveitingum líkt og gert sé á hennar vinnustað.
Svo spyr hún af hverju það þurfi 100 manns að vinna hjá menntamálaráðuneytinu. Þeirra vinna þurfi að vera kennurum sýnilegri. Annars væri hægt að skera starfsmannafjöldann niður í 50 „og setja fjármagnið frekar í að setja lög um að hafa sálfræðinga í ÖLLUM framhaldsskólum á Íslandi.“ Það muni minnka kvíða og vanlíðan hjá nemendum.
Svo sendir kennarinn nýárskveðju og óskar ríkisstjórninni góðs gengis.
Annar borgari deilir reynslu sinni af því þegar hann starfaði í vitadeild hjá Vegagerðinni árið 2021. Hann vill að starfsemi stofnunarinnar verði skoðuð frekar.
„Ég hef aldrei séð eins mikla spillingu í lífinu mínu. Hvernig farið er með almannafé er skelfilegt. Endalaust verið að kaupa hluti sem var óþarfi eða jafnvel notaður einu sinni. Yfirmaður minn notaði ríkisbifreið til einkanotkunar og ofskrifaði dagpeninga til sín ásamt yfirvinnutímum,“ segir hann.
Að hans mati þarf líka að hætta að taka fé af stofnunum sem skila hagnaði.
„Faðir minn starfaði sem yfirmaður vinnuflokka og var fyrsti einstaklingurinn í þeirri stöðu að skila flokkunum í hagnaði! Honum var tilkynnt það að ef hann eyddi því ekki í hvelli yrði hagnaður dreginn af honum á næsta ári! Hvaða rugl er það? Auðvitað á það að vera markmið að halda ríkisstofnunum í hagnaði, og alls ekki skerða fjármagn til þeirra.“
Hann telur að þetta leiði til óþarfa kostnaðar fyrir ríkissjóð.
Annar borgari deilir sögu af ferð sinni að fossinum Dynjanda á Vestfjörðum. Þar sem hann hitti fyrir sérmenntaðan landvörð á vegum Umhverfisstofnunar sem tjáði honum að hann kæmi frá Reykjavík og byggi á hóteli, fengi dagpeninga og væri á bílaleigubíl.
Verkefni hans fælust aðallega í að tína rusl.
Borgarinn segist hafa tekið eftir því að engar ruslafötur voru á svæðinu en landvörðurinn þá tjáð honum að það væri vegna þess að fólk kynni ekki að flokka. Í staðinn væri sorpvinnslufyrirtæki fengið í verkið og kostaði það 500 krónur á kílóið.
Landvörðurinn hafi einnig sagst panta þjónustu til að tæma rotþrær einu sinni til tvisvar í viku og kostaði það hálfa milljón í hvert skipti. Skólpið væri svo flutt til Ísafjarðar og dælt beint í sjóinn þó að engin væri þar skólphreinsistöðin.
„Að framansögðu sýnist mér þessi viðvera landvarðar þarna öllum stundum vera alls óþarfa og sorpþjónustufyrirtæki vera að maka krók sinn óhólega,“ segir borgarinn.
Á leið sinni frá fossinum hafi hann svo tekið eftir fjórum manneskjum í fjörunni sem sögðust vera frá Náttúrustofnun Vesturlands og væru að rannsaka og telja fjölda skordýra í fjörunni.
„Mér þykir full ástæða til að skoða vandlega vöxt náttúrufræðistofnana sem komnar eru í hvern landsfjórðung. Í rannsóknarverkefnum sem mér hefur á stundum þótt óþörf gæluverkefni. Mörg mjög kostnaðarsöm.“
Svo eru það þeir sem vinna heimavinnuna sína vel, vísa í heimildir og setja upp heimildaskrá, sem fylgir með.
Einn borgari kemur með nokkrar tillögur og vísar til heimilda máli sínu til stuðnings með þeim öllum. Hann tekur reyndar fram að um sé að ræða tillögur sem muni skila langtímasparnaði og séu þær því kannski óvinsælar. Hann hefur svo sett upp ítarlega heimildaskrá sem fylgir með fyrir neðan tillögurnar.