„Í öllum þessum hundruð eða þúsundum tillagna hljóta nú að leynast gullmolar, ég er sannfærð um það.“
Þetta segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra um þær fjölda tillagna sem Íslendingar hafa sent inn í samráðsgátt stjórnvalda eftir að ríkisstjórnin óskaði eftir hugmyndum að hagræðingu í ríkisrekstri.
Margt sé vissulega fyrirsjáanlegt en hún telur að þarna muni einnig koma fram margar mjög raunhæfar tillögur og í takt við stefnuskrá ríkisstjórnarinnar.
„Það litla sem ég er búin að sjá, eins og til dæmis sameining stofnana, án þess að ég tilgreini hvaða stofnanir það eru, þá er alveg ljóst að við getum gert ýmislegt hvað það varðar. Í hagræðingu, nýtingu fjármuna, einföldum regluverks og svo framvegis,“ segir Þorgerður.
„Mér finnst þetta frábært, gaman að við ákváðum að fara þessa leið, ríkisstjórnin, klukka fólkið okkar í landinu,“ bætir hún við.
Margar tillögurnar snúa að því draga úr umfangi utanríkisþjónustunnar og úr alþjóðsamvinnu, að ganga úr Atlantshafsbandalaginu, til að mynda, sem er svo sannarlega ekki á stefnuskrá nýrrar ríkisstjórnar.
„Þvert á móti þarf að marka og móta skýra varnar- og öryggisstefnu. Það er mjög mikilvægt og miklir hagsmunir fólgnir í því fyrir Ísland, fullveldi þess og öryggi borgarana að við byggjum undir nákvæmlega þennan þátt,“ segir Þorgerður.
„Mér finnst þetta áhugavert út frá því sem ég sagði á fyrstu dögum í embætti, svolítið að tala um utanríkisþjónustuna á mannamáli. Hvaða þýðingu hefur það fyrir okkur að alþjóðasamningar séu virtir? Ef þeir eru ekki virtir, hvað verður um efnahagslögsöguna í kringum Ísland? Hvaða vissu höfum við við fyrir því að við getum ráðið og stjórnað okkar landhelgi og svo framvegis. Við eigum mjög mikið undir því að alþjóðasamningar séu virtir, svo ég nefni EES-samninginn líka.“
Hún segir það ákveðna áskorun að koma þeim skilaboðum til fólksins í landinu, hvort sem það er til þeirra sem eru yfir heimilisbókhaldinu, eða litlum og meðalstórum fyrirtækjum á landsbyggðinni, hvaða þýðingu það hafi að vera með opna markaði og aðgang að hráefni.
„Í stóru myndinni þá er verk að vinna fyrir utanríkisþjónustuna og ég hlakka til að taka þetta samtal við þjóðina.“
Hins vegar þurfi utanríkisráðuneytið, eins og öll önnur ráðuneyti, að líta inn á við og hugsa hvar sé hægt að hagræða og spara, bæði í þágu ábyrgari ríkisfjármála og til að hægt sé að veita svigrúm í önnur verkefni, sem eru kannski brýnni í dag en fyrir nokkrum árum eða áratugum.
„Það er líka svolítið spennandi þegar þetta verður allt tekið saman, hvernig þetta nýtist heildinni. Það er allavega ljóst að við erum mjög einbeittar í að ná fram hagræðingu í ríkisrekstri og þess vegna erum við að leita til þjóðarinnar. Fólkið á gólfinu er oft með skarpari augu en margir aðrir.“
Aðspurð um næstu verkefni á sviði öryggis- og varnarmála segir hún þau meðal annars felast í frekari samskiptum við Úkraínu. Þá ætlar hún að kynna sér betur málin fyrir botni Miðjarðarhafs og fara í ákveðin samtöl við þær þjóðir og stofnanir sem þar eru. Einnig við Norðurlöndin, sér í lagi Noreg.