Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor er höfundur bókarinnar Conservative Liberalism North & South – Grundtvig, Einaudi and their Relevance Today (Frjálslynd íhaldsstefna í norðri og suðri – Grundtvig, Einaudi og gildi þeirra á okkar dögum).
„Bókin er samanburður á frjálslyndri íhaldsstefnu í norðri og suðri. Ég tek tvo fulltrúa sem dæmi,“ segir Hannes Hólmsteinn. „Annar er Grundtvig, danski presturinn og ljóðskáldið, og hinn er ítalski hagfræðingurinn Einaudi. Ég ræði í nokkrum smáatriðum um hugmyndir Grundtvigs um þjóðríkið því að hann var þjóðernissinni jafnframt því sem hann var frjálshyggjumaður. Einaudi var hins vegar alþjóðahyggjumaður sem lagði meiri áherslu á að stofna ríkjasamband til að tryggja friðinn í Evrópu en á þjóðríkið. Hann hefur oft verið talinn einn af feðrum Evrópusambandsins. Ég er í rauninni að bera saman þjóðríkið og ríkjasambandið sem einingar, þjóðlega og alþjóðlega frjálshyggju.
Í bókinni bendi ég á að Norðurlöndin geta verið fyrirmynd annarra þjóða um alþjóðasamstarf. Ég bendi á fimm þætti í því sambandi.
Fyrsti þátturinn er friðsamlegur aðskilnaður. Svíþjóð og Noregur skildu árið 1905, Finnland og Rússland árið 1917 og Ísland og Danmörk árið 1918. Þetta var ekki vegna þess að þessar þjóðir væru óvinir heldur litu Norðmenn svo á að þeir væru ekki Svíar, Finnar ekki Rússar og Íslendingar ekki Danir. Allar þessar þjóðir vildu vera sjálfstæðar.
Í öðru lagi felst í norrænu leiðinni að breyta landamærum samkvæmt atkvæðagreiðslum eins og gert var í Slésvík árið 1920 þegar þessu umdeilda héraði var skipt í þrjú kjördæmi og nyrsta kjördæmið ákvað að fylgja Danmörku en hin tvö fylgdu Þýskalandi. Þetta er áhugaverð lausn í staðinn fyrir að berjast blóðugri baráttu.
Norræna leiðin er í þriðja lagið fólgin í því að veita þjóðarbrotum sjálfstjórn. Finnar veittu Álandseyingum sjálfsforræði og hið sama gerðu Danir við Færeyinga og Grænlendinga.
Í fjórða lagi er norræna leiðin fólgin í því að sætta sig við úrskurð alþjóðadómstóla um ágreiningsefni. Ég nefni í bókinni ágreining Svíþjóðar og Finnlands 1920 um yfirráð yfir Álandseyjum. Alþjóðadómstóllinn í Haag dæmdi Finnlandi í vil og Svíar sættu sig við það. Árið 1932 var ágreiningur á milli Norðmanna og Dana um yfirráðin yfir Grænlandi og Alþjóðadómstóllinn dæmdi Danmörku í vil og Norðmenn sættu sig við það.
Fimmti þátturinn er samstarfið innan Norðurlandaráðs sem er að mínu mati mjög til fyrirmyndar. Það er sjálfsprottið samstarf sem felur í sér lágmarksafsal fullveldis. Ég held að Evrópusambandið ætti að taka sér Norðurlandaráð til fyrirmyndar í framtíðinni frekar en að reyna að vera önnur útgáfa af Bandaríkjum Norður-Ameríku.“
Skrifaðir þú bókina af einhverju sérstöku tilefni?
„Ég hef haldið marga fyrirlestra á vettvangi hægrimanna í Evrópu um norræna frjálshyggju og bent þar á hinn norræna frjálshyggjuarf frá Snorra Sturlusyni fram á okkar daga. Þetta hefur vakið mikla athygli og í framhaldi af því báðu íhaldsflokkar í Evrópu mig að skrifa bók og bera saman frjálslynda íhaldsstefnu í norðri og suðri.
Bókinni er meðal annars dreift til þeirra sem sitja á Evrópuþinginu. Hægrimenn í Evrópu eru í mikilli sókn og það sem ég er að reyna að gera er að sannfæra þá um að þeir eigi að standa á gömlum merg. Til dæmis má rekja nálægðarregluna sem heitir á ensku „subsidiarity principle“ til heilags Tómasar af Akvínas og í bókinni legg ég áherslu á að Evrópusambandið fylgi þeirri reglu. Nálægðarreglan kveður á um að taka eigi ákvarðanir sem næst þeim sem þær varða, en ekki inni í einhverju blekiðjubákni í Brussel. Ég geri ýmsar aðrar umbótatillögur í anda Einaudis um Evrópusambandið, enda er ég ekkert á móti því þótt við Íslendingar eigum ekki erindi í það.“
Þú ert á þeytingi um heiminn að halda fyrirlestra og sitja ráðstefnur. Þú virðist ekki vera jafn eftirsóttur hér á landi. Er það eitthvað sem truflar þig?
„Alls ekki. Það er hins vegar rétt að eftir bankahrunið 2008 hætti ég svo sannarlega að vera spámaður í föðurlandi. Ég hafði talsverð áhrif á níunda og tíunda áratugnum og þá voru gerðar miklar kerfisbreytingar á Íslandi sem voru mjög í sama anda og kerfisbreytingar í öðrum löndum. Þær voru þáttur í alþjóðlegri þróun sem hófst þegar menn sáu að miðstýringin í ráðstjórnarríkjunum gekk ekki upp og ríkisafskiptastefnan á Vesturlöndum gekk ekki heldur upp.“
Eru fleiri bækur væntanlegar frá þér eða í undirbúningi?
„Ég get nefnt tvær. Ég er ritstjóri safnrits á ensku um norræna frjálshyggju frá Ara fróða og Snorra Sturlusyni fram á okkar daga, sem kemur út eftir nokkra mánuði í Brussel. Síðan langar mig til að skrifa sjálfsævisögu. Ég hef frá mörgu að segja, hef farið um allan heim, kynnst mjög mörgum og margt hefur á daga mína drifið. Ég átti í miklum átökum en er mjög sáttur við lífið eins og það er.“
Ef sjálfsævisagan verður skrifuð hvenær ætlarðu þá að byrja?
„Ég held að ég verði að byrja strax. Ég er að skrifa ýmislegt hjá mér, man margt en þarf að rifja annað upp. Ég ætla að skrifa hana áður en ég verð orðinn alltof mildur og meyr þannig að það verði eitthvert bit í henni.“
Hefur líf þitt orðið eins og þú óskaðir þér þegar þú varst ungur maður?
„Já og nei. Mér hefur aldrei liðið jafn vel og ég hef aldrei verið jafn hamingjusamur. Ég hef komið þannig fyrir lífi mínu bæði á Íslandi og Brasilíu, þar sem ég bý hluta ársins, að ekki verður á betra kosið. Ég hefði þó gert margt öðruvísi ef ég hefði vitað meira um hvernig lífið yrði. Aðallega hefði ég nýtt tíma minn betur. Ég hefði lært fleiri tungumál, ekki eytt púðri í aukaatriði heldur einungis sinnt aðalatriðunum.“
Þú átt gott líf í Brasilíu, af hverju býrðu ekki allt árið þar? Hvað er það við Ísland sem gerir að verkum að þú vilt vera hérna?
„Það er þrennt á Íslandi sem togar í mig, fyrir utan hina römmu taug sem rekka dregur föðurtúna til, eins og skáldið orti. Ég á ágæta fjölskyldu hér á Íslandi, þrjú systkini og sex systurdætur. Í öðru lagi á ég dygga og trygga vini sem hafa alltaf staðið með mér. Í þriðja lagi búa í húsinu hjá mér fósturdóttir mín og tveir yndislegir drengir hennar, sem ég hef mjög gaman af að aðstoða og gæta.“
Fullorðnir sýna börnum oft aðra hlið en þeir sýna öðrum. Sjá börnin mildari hlið en margir sjá á þér?
„Já, drengirnir sjá engan grimman Hannes. Ég er mjög elskulegur og eftirlátssamur við þá. Ég myndi halda að þeir laði fram það besta í mér.“
Nánar er rætt við Hannes í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.