Það hafa komið dagar þar sem bráðavakt lækna í Rangárþingi á Suðurlandi hefur fallið niður, þar sem ekki hefur tekist að manna vaktirnar. Ekki hefur þá verið læknir til staðar til að sinna bráðatilfellum. Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands segir það áhyggjuefni, en að allt sé reynt til að fastráða lækna á heilsugæsluna í Rangárþingi.
Komi þessi staða upp þarf að reiða sig á annað heilbrigðisstarfsfólk.
„Þá er það bráðaviðbragðið okkar og stuðningur frá öðrum stöðvum. En en þetta er staða sem við viljum ekki sjá. Þetta er það sem gerist þegar við erum ekki með fasta mönnun, þá erum við háð því framboði sem er af verktakalæknum,“ segir Díana Óskarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU), í samtali við mbl.is.
Síðustu mánuði hefur staðan verið þannig að nánast eingöngu verktakalæknar hafa sinnt sjúklingum á svæðinu, þar sem ekki hefur tekist að fastráða lækna á heilsugæslustöðina í Rangárþingi.
Díana segir stöðuna hafa breyst mjög hratt til hins verra. Ekki fyrir svo löngu síðan hafi fastráðnir læknar verið í tveimur og hálfu stöðugildi á heilsugæslunni, sem hafi sinnt bæði dagvöktum og bráðavöktum utan dagvinnutíma. En þeir læknar létu af störfum af persónulegum ástæðum.
Nú sé þó búið að tryggja tvo verktakalækna til starfa á heilsugæslunni út janúar og verið sé að reyna að ganga frá ráðningum fyrir febrúar. Því ætti ekki að koma upp sú staða í þessum mánuði að læknir sé ekki til taks.
„Það er áhyggjuefni að það sé ekki föst mönnun þarna, en það eru læknar á stöðinni núna. Við erum með tvo íslenska lækna hjá okkur, svo kemur danskur læknir til okkar í janúar. Við erum að vinna með norskri ráðningarskrifstofu líka og horfum til þess að mögulega komi norskur læknir til okkar í febrúar. Við viljum hafa íslenska lækna, en þetta er til að bæta aðgengi að þjónustunni.“
Á sama tíma segir hún allt reynt til fastráða lækna í stöðugildin á heilsugæslustöðinni. Ekki stendur til að loka stöðinni og tekur Díana fram að góð mönnun sé þar að öðru leyti.
Töluvert hefur verið fjallað um skort á læknum í Rangárþingi og stöðu heilbrigðismála á Suðurlandi í fréttum síðustu daga. Í fréttum Stöðvar 2 í gær, lýstu íbúar á Hvolsvelli til að mynda áhyggjum sínum af stöðu mála og vildu meina að almennt væri mjög erfitt að fá læknisþjónustu á svæðinu. Einn íbúi sagðist ekki hafa haft heimilislækni árum saman.
Þá fjallaði mbl.is um mál manns fyrir helgi sem lést á dvalarheimilinu Kirkjuhvoli á Hvolsvelli á aðfangadagskvöld, en ekki var hægt að úrskurða hann látinn þar sem aðeins var læknir á vakt til að sinna lífsógnandi tilfellum. Þótti andlát á hjúkrunarheimili ekki falla undir þá skilgreiningu.
Díana ætlar eftir helgi að taka saman upplýsingar fyrir almenning um hvernig læknisþjónustu er háttað í Rangárþingi og skýra stöðuna betur fyrir íbúum.
Hún segir ekki rétt að ekki hafi verið læknir til staðar árum saman.
„Einn var að hætta hjá okkur um áramótin. Það hafa verið þarna tvö og hálft stöðugildi og þeir hafa sinnt þessari stöð mjög vel. Þeir hafa haldið mjög vel utan um skjólstæðingana sína. Við höfum fundið það, því fólk í Rangárþingi hefur lítið leitað á Selfoss í gegnum tíðina,“ segir Díana. Henni þykir þó mjög leitt að fólk upplifi stöðuna með þessum hætti.
„Núna er einhver smá vendipunktur hjá okkur. Þessir læknar eru ekki lengur við störf, en við erum með verktaka hjá okkur erum búin að tryggja mönnun út janúar og erum byrjuð að vinna með febrúar.“
Stjórnendur HSU munu funda með fulltrúum frá sveitarfélögunum á morgun þar sem upplýst verður um hvað er verið að gera til að bæta stöðuna og hvernig því ferli er háttað. Díana segir ráðuneytið einnig upplýst um hvað er verið að gera.
„Við erum ekki að verða einhver eyðimörk. Við erum með hátt í 40 lækna hjá okkur, fyrir utan verktakalækna sem rúlla til okkar,“ segir hún og vísar þá til þeirra lækna sem starfa hjá HSU.
Ekki eru gerðir ráðningarsamningar við verktaka heldur eru þeir á ákveðnum verktakataxta, sem Díana segir svipaðan hjá flestum stofnunum.
„Nema það eru einhver frávik eftir því hvernig gengur að manna á hverjum stað. Á sumum stofnunum ertu langt frá Reykjavík og þá erfiðara að manna, þar geta verið frávik. En þar sem ég þekki til þá eru stofnanir á svipuðu róli.“
Hún segir því ekki rétt sem tveir læknar, sem störfuðu hjá HSU hafa haldið fram, að stjórn stofnunarinnar hafi verið að bjóða læknum lakari kjör en þekkist og bregðast þannig ekki nógu vel við þeim mönnunarvanda sem er til staðar.
Taxtarnir séu í takt við þau verkefni sem fylgi hverri og einni starfsstöð.
„Svo eru komnir nýir kjarasamningar lækna og það þarf bara að endurskoða þennan taxta í kjölfarið. Það er vinna sem er að fara í gang hjá okkur og væntanlega flestum stofnunum,“ segir Díana.
Hún ítrekar að lokum að ýmislegt sé verið að gera til að reyna að fastráða lækna á heilsugæslustöðina. HSU sé tilbúið að aðstoða með húsnæði og sveitarfélögin hafa boðið leikskólapláss. Þá hafa hafa samtöl við ráðherra átt sér stað um einhvers konar ívilnanir.
„Þannig það eru allir að leggja sitt af mörkum til að þetta geti endað farsællega,“ segir Díana.