Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist þakklát Bjarna Benediktssyni, fráfarandi formanni og þingmanni flokksins, fyrir störf hans og segir hún Bjarna einn fremsta stjórnmálamann sem íslenska þjóðin hafi átt.
„Fyrstu viðbrögð eru bara þakklæti fyrir hans fjölmörgu góðu störf og allt það góða sem hann hefur leitt til leiða,“ segir Diljá í samtali við mbl.is.
Er þetta högg fyrir flokkinn?
„Ég myndi kannski lýsa því þannig. Auðvitað er þetta einn fremsti stjórnmálamaður sem við höfum átt, sannarlega, og fáir sem komast með tærnar þar sem hann hefur hælana. En það kemur maður í manns stað og við höfum yfir að búa fleiri efni í forystufólk heldur en önnur stjórnmálaöfl. Þannig að ég hef nú ekki miklar áhyggjur af því.“
Eru einhverjar hugmyndir komnar um stjórn flokksins?
„Nei, ég myndi ekki ganga svo langt að segja það. Það hafa náttúrulega fjölmargir verið nefndir til sögunnar. Einhverjir hafa tjáð sig um það nú þegar þannig núna förum við bara að ráða ráðum okkar.“
Þá segir Diljá að spennandi verði að sjá hverjar lyktir verða en til stendur að halda næsta landsfund Sjálfstæðisflokksins í lok febrúar.
Og hefur þú áhuga á að bjóða þig fram?
„Ég hef sagt það að ég hef frá unga aldri tekið mjög virkan þátt í málefnavinnu í Sjálfstæðisflokknum og verið í nánum tengslum við fólkið í flokknum, þannig ég útiloka ekkert í þeim efnum.“