Fjármagnaði 250 augnaðgerðir

Guðni ásamt eiginkonu sinni, Sigrúnu M. Sigurgeirsdóttur.
Guðni ásamt eiginkonu sinni, Sigrúnu M. Sigurgeirsdóttur.

Guðni Albert Einarsson, framkvæmdastjóri Klofnings ehf., styrkti í október síðastliðnum Tulsi Chanrai Foundation, augnlækningaspítala í Calabar í Nígeríu, um 15.000 dali en upphæðin samsvarar um 25.000.000 nígerískum nærum.

Afþakkaði afmælisgjafir

Í samtali við Morgunblaðið segir Guðni upphæðina hafa verið afrakstur afmælisgjafa sem honum voru færðar í tilefni sjötugsafmælis síns þann 31. ágúst síðastliðinn. Hann hafi afþakkað allar afmælisgjafir en bent vinum sínum og vandamönnum á reikning sem hægt væri að leggja inn á ef fólk hefði áhuga.

Hann hafi sjálfur ætlað að styrkja 100 aðgerðir í tilefni stórafmælisins en samanlagt fjármögnuðu afmælisgjafirnar og hans eigið framlag 250 augnaðgerðir á fólki sem án styrksins hefði líklega aldrei komist í slíka aðgerð.

Lengi styrkt sama sjóð

Spurður hvernig þetta hafi allt saman komið til segir Guðni fyrirtækið Klofning ehf., þar sem hann er framkvæmdastjóri, hafa styrkt þennan sama sjóð í mörg ár.

Klofningur framleiði þurrkaðar fiskafurðir, eða skreið, fyrir Nígeríumarkað. Fyrirtækið hafi ásamt öðrum íslenskum og færeyskum framleiðendum og flutningsaðilum á skreið styrkt þetta sjúkrahús í gegnum tíðina. Þá styrki segir hann hafa komið til þegar stór kaupandi frá Nígeríu á sínum tíma kynnti þeim sjóðinn.

Indverskir eigendur sjóðsins hafi verið með alls konar verkefni bæði á Indlandi og í Nígeríu og þar á meðal hafi verið þessi augnlækningaspítali í Calabar í Nígeríu sem skreiðarframleiðendur hafa síðan tekið þátt í að styrkja.

Vildu gefa til baka

Guðni segir Klofning hafa viljað gefa aðeins til baka inn á markaðinn og bætir við að flestir skreiðarframleiðendur á Íslandi og í Færeyjum styrki þennan sama sjóð. „Við komum inn í þetta, þessir skreiðarframleiðendur, og sendum einn gám árlega þeim að kostnaðarlausu,“ segir hann.

Innihaldið í gámnum, skreiðin, sé síðan selt og ágóðinn notaður í þetta verkefni. Frá upphafi þessara styrkja, sem var að sögn Guðna í kringum árið 2003, hafa um 50.000 augnaðgerðir verið framkvæmdar á spítalanum.

„Hvert einasta sent sem inn hefur komið hefur farið í þessar aðgerðir,“ segir Guðni.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert