Magnið sem safnast upp vegna mikils fjölda hesta á höfuðborgarsvæðinu ásamt strangari reglum varðandi urðun er helsta ástæða þess að hestamönnum í nokkrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu er nú gert að fara með hrossatað til förgunar hjá Sorpu.
Hér í blaðinu á laugardaginn var rætt við Lindu Björk Gunnlaugsdóttur, formann Landssambands hestamannafélaga, og Guðmund Björgvinsson, hestamann í Mosfellsbæ, sem furðuðu sig á þessari breytingu en um töluverðan kostnað fyrir hestamenn er að ræða. Hjá Sorpu greiða þeir 25,68 krónur í móttökugjald fyrir hvert kíló. Fram kom hjá talsmanni Sorpu að gjaldið endurspeglaði kostnað við meðhöndlun og förgun.
Morgunblaðið ræddi við Hörð Þorsteinsson, framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness, en hann þekkir málið vel. Hörður er sammála hestamönnum sem hafa gagnrýnt hversu hátt gjaldið er sem þeir þurfa að greiða hjá Sorpu en telur að hægt verði að lækka gjaldið með samvinnu Sorpu, hestamanna og sveitarfélaganna.
Vandamálið sé hins vegar mikill fjöldi hesta á höfuðborgarsvæðinu og hver eigi að bera kostnaðinn af því að koma taðinu til Sorpu eða á stór svæði þar sem nýta megi taðið til uppgræðslu.
„Það virðist vera mikill misskilningur í gangi um að Sorpa hafi skilgreint hrossatað sem spilliefni. Þetta er lífrænn úrgangur eða ABP. Er það skilgreint sem aukaafurðir dýra sem ekki eru nýttar sem fóður eða til manneldis. Þessu þarf einhvers staðar að koma fyrir og reglurnar varðandi það eru orðnar strangari. Við megum ekki urða lífrænan úrgang samkvæmt reglugerð frá Evrópusambandinu en nýta mætti verðmæti úr hrossataðinu og styðja þannig hringrásarhagkerfið,“ segir Hörður. Magnið sé stærsta vandamálið á höfuðborgarsvæðinu, enda hestamennskan vinsæl.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag