Búseti bendir á að áform um kjötvinnslu í umdeildri vöruskemmu við Álfabakka 2 í Breiðholti samræmist ekki aðalskipulagi Reykjavíkurborgar. Íbúar í nágrenninu krefjast þess að framkæmdum verði frestað þar til farsæl lausn í málinu er fundin en hundruð hafa sett nafn sitt á undirskriftalista þess efnis.
Vöruhúsið er ætlað undir kjötvinnslu Ferskra kjötvara, eldhús fyrir Eldum rétt og skrifstofur tengdar þeirri starfsemi. Framkvæmdin byggist á breytingu sem skipulagsráð borgarinnar samþykkti árið 2022 að ósk byggingaraðila þar sem fjórir byggingarreitir voru sameinaðir og reiturinn stækkaður.
Í breytingartillögunni var gert ráð fyrir að starfsemin væri „innan marka sem þjónustulóð, en á lóðinni verður vöruskemma, verslanir og skrifstofuhúsnæði“.
Í aðalskipulagi kemur hvergi fram að vöruskemma – eða kjötvinnsla – sé innan umræddra marka. Á reitnum, sem kallast M12, er þó gert ráð fyrir fyrir verslun, skrifstofum o.fl. sem varðar nærumhverfi íbúa á svæðinu.
„Ég get ekki ímyndað mér að þetta stálgrindarhús geti verið þarna í núverandi mynd,“ segir Bjarni Þór Þórólfsson, framkvæmdastjóri húsnæðissamvinnufélagsins Búseta sem byggði blokkina við Árskóga.
Teikningarnar sem lagðar voru fyrir byggingarfulltrúa standast heldur ekki reglugerð, að sögn Bjarna, þar sem afstöðumynd sýnir ekki önnur mannvirki innan 30 m frá vöruhúsinu. Fjölbýli að Árskógum 7 er í um 14 m fjarlægð frá vöruhúsinu og enn þá nær ef miðað er við svalir blokkarinnar.
„Þetta er ekkert í takt við nærumhverfið og hlýtur að flokkast sem mistök, eins og ýmsir fulltrúar borgarinnar hafa talað um, sem fólk skilur ekki hvernig gátu raungerst.“
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag