Munu kýrnar tala mannamál?

Frá þrettándabrennu við Ægisíðuna í höfuðborginni.
Frá þrettándabrennu við Ægisíðuna í höfuðborginni. mbl.is/Árni Sæberg

Sjötti janúar er í dag og þar með síðasti dagur jóla. Er dagurinn iðulega kallaður þrettándinn og víða eru haldnar brennur og skemmtanir af ýmsu tagi af því tilefni. 

Þrettándagleði eða þrettándabrennur hafa verið auglýstar víða um land í dag og í kvöld og má þar nefna Akranes, Borgarnes, Fjallabyggð, Dalvík, Hörgársveit, Egilsstaði, Reykjanesbæ, Hafnarfjörð og Mosfellsbæ. Í einhverjum tilfellum er hátíðarhöldum í tilefni af þrettándanum lokið, eins og í Vestmannaeyjum.

Jólasveinar í Grafarvogi

Í Reykjavík er boðað til þrettándabrennu í Gufunesbæ frá kl. 18-19. Munu Langleggur og Skjóða stíga á svið kl. 18.25 og jólasveinarnir koma um kl. 18.40, en þeir halda sem kunnugt er aftur heim til fjalla að loknum jólunum. Verður svo efnt til flugeldasýningar kl. 19.

Athygli vekur að enga formlega tilkynningu um þrettándabrennur er að finna á vef Reykjavíkurborgar, en í fyrra var haldin þrettándagleði við Ægisíðuna.

Álfar flytja og kýr tala

Um þjóðtrú tengda þrettándanum gildir flest hið sama og um nýársnótt samkvæmt Vísindavef Háskóla Íslands en þar er ýmsan athyglisverðan fróðleik að finna sem tengist þessum degi:

„Meðal annars að selir fari
úr hömum sínum, kirkjugarðar
rísa, álfar flytjast búferlum og
kýr tala mannamál. Hættulegt
gat verið að hlusta á tal kúnna því þær reyndu að æra þá sem það gerðu.“

Landsmenn ættu því að fara varlega innan um kýr í dag og í kvöld eða þar til þrettándinn er liðinn. Allur er varinn góður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert