Sparnaðarráð almennings: Hætta að salta götur

Nýja ríkisstjórnin efnir til samráðs við almenning um hagræðingu.
Nýja ríkisstjórnin efnir til samráðs við almenning um hagræðingu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Yfir 2.200 umsagnir hafa borist inn á samráðsgátt eftir að ríkisstjórnin óskaði eftir hugmyndum að hagræðingu í ríkisrekstri.

Þetta má sjá á samráðsgátt og kenna tillögurnar ýmissa grasa.

Margir leggja það til að leggja niður Ríkisútvarpið, ÁTVR og styrki til stjórnmálaflokka en aðrir leggja það til að hin ýmsu velferðarkerfi verði efld.

Farið verði yfir fjármál Vatnajökulsþjóðgarðs

Gísli Rafn Jóns­son, eig­andi Mý­vatn Tours, hefur sent inn umsögn þar sem hann hvetur ríkisstjórnina til að fara yfir fjármál Vatnajökulsþjóðgarðs. „Fara þarf yfir þann fjáraustur sem veittur er til starfsemi þjóðgarðsins i Drekagili,“ skrifar Gísli.

Hann segir þjóðgarðinn vera með hús á þeim stað og þar standi fjórir til sex Toyota Hilux-bílaleigubílar yfir nóttina.

„Síðan fer einn landvörður á bíl hingað og þangað að morgni og kemur aftur síðdegis. Lítil viðvera og stundum engin í Öskju, sem ætti þó að vera aðalmálið. Það er ekki ásættanlegt að hægt sé að ausa fjármunum almennings á þennan hátt meðan ekki er hægt að fá heflun á leiðina í Öskju og vegurinn engan veginn boðlegur fólki og farartækjum og viðgerðarkostnaður mjög mikill af farartækjum sem borga fullan þungaskatt í formi olíugjalda, á þennan ónothæfa veg,“ skrifar Gísli.

Lögleiða og skattleggja fíkniefni

Þátttakendum er boðið upp á valkostinn „Óska eftir að efni umsagnar og nafn sendanda birtist ekki í gáttinni“. Margir nýta sér þetta, þannig að meirihluta umsagna er ekki hægt að lesa. 

Ein kona leggur það til dæmis til að hætta að salta götur og göngustíga en annar umsagnaraðili leggur það til að lögleiða og skattleggja öll fíkniefni.

„Hætta að salta götur og gangstígana. Pækillinn eyðileggur svo skófatnaðinn, festist í skiptingunni á hjólunum og særir fæturna á dýrunum,“ skrifar einn umsagnaraðilinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert