Þorgerður Katrín greindi frá áætlunum ríkisstjórnarinnar

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra átti í dag símafund með Espen …
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra átti í dag símafund með Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra átti í dag símafund með Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs. Tilgangur fundarins var að koma á samtali ráðherranna og ræða áframhaldandi gott samstarf ríkjanna á alþjóðasviðinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu. 

Greining á kostum og göllum krónunnar

„Tengsl Íslands og Noregs eru sterk og rótgróin. Við deilum sameiginlegum gildum og hagsmunum meðal annars í utanríkis- og varnarmálum, auk þess að eiga í mikilvægu viðskiptasamstarfi á grundvelli EES-samningsins sem við erum sammála um að áfram þurfi að sinna vel. Ég greindi honum einnig frá áætlunum ríkisstjórnarinnar um að setja af stað vinnu óháðra aðila við að greina kosti og galla íslensku krónunnar og halda þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna um Evrópusambandsaðild árið 2027,“ er haft eftir Þorgerði Katrínu í tilkynningunni. 

Einörð í stuðningi við Úkraínu

Mikilvægi norrænnar samvinnu og aukið vægi samstarfs Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna á sviði utanríkis- og varnarmála varð ráðherrunum sömuleiðis að umtalsefni ásamt málefnum norðurslóða. Ráðherrarnir ræddu einnig sameiginlega afstöðu ríkjanna til málefna Úkraínu og Palestínu, segir enn fremur. 

„Bæði Ísland og Noregur hafa verið einörð í stuðningi sínum við Úkraínu og á því verður engin breyting,“ er enn fremur haft eftir Þorgerði Katrínu.

Vill leggja meira af mörkum

„Norðmenn hafa verið afgerandi í stuðningi sínum við palestínsku þjóðina og í þeim efnum greindi ég frá ásetningi mínum um leggja meira af mörkum til að bæta ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs þar sem ríkisstjórnin horfir meðal annars til málflutnings og aðgerða norskra stjórnvalda til að knýja á um tveggja ríkja lausn.“

Þá kemur fram, að í gær hafi Þorgerður Katrín jafnframt átt símafund með Philippe Lazzarini, framkvæmdastjóra Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA), þar sem hún staðfesti að Ísland muni greiða framlög til stofnunarinnar fyrr en áætlað var, í ljósi gríðarlegrar mannúðarþarfar. Þá ræddi ráðherra einnig við Sigrid Kaag, yfirmann mannúðar- og uppbyggingarmála Sameinuðu þjóðanna fyrir Gaza, um mikilvægi þess að koma á vopnahléi á Gaza, bæta aðgengi að mannúðaraðstoð og finna leið að lausn fyrir fólkið á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert