„Þetta eru auðvitað rosalega stór ákvörðun og mikil tímamót bæði fyrir hann persónulega eftir langan feril en líka fyrir Sjálfstæðisflokkinn og íslensk stjórnmál,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfsstæðisflokksins.
Varaformaðurinn var staddur í utanlandsferð er blaðamaður náði tali af henni og kvaðst hafa bókað fríið í þeirri trú að það yrði það fyrsta tíðindalausa í átta ár eftir að hafa afhent nýjum utanríkisráðherra lyklana að ráðuneytinu.
Svo varð þó ekki en Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins tilkynnti í dag að hann hygðist ekki gefa kost á sér til formennsku flokksins og hyggðist segja af sér þingmennsku.
„Hann er búinn að vera mikill leiðtogi í íslenskum í langan tíma, búinn að sitja í ríkisstjórn í yfir áratug í gegnum mjög súrrealíska tíma.“
Hún segir Bjarna hafa tekist á við mörg margslungin verkefni á sínum árum í stjórnmálum ekki síst á síðustu misserum þar sem hann hafi leitt flokkinn og setið í ríkisstjórn á sögulegum tímum þar sem áskoranir á borð við heimsfaraldur, stríð og náttúruhamfarir hafi verið áberandi.
„Hann hefur staðið sig gríðarlega vel í gegnum mörg stór verkefni, sérstaklega þegar kemur að því að mynda starfhæfar ríkisstjórnir þá hefur hann nokkrum sinnum sett sjálfan sig til hliðar.“
Spurð hvort henni hugnist að taka við formennskunni af Bjarna kveðst Þórdís margoft hafa svarað þeirri spurningu í gegnum tíðina en að fyrst og fremst eigi dagurinn í dag að snúast um Bjarna og þessi miklu kaflaskil.
„En ég hef auðvitað svarað þessari spurningu alloft undanfarin ár og væri auðvitað ekki í forystu flokksins og gegnt varaformennsku síðastliðin sjö ár nema ég væri tilbúin og klár til að leiða flokkinn inn í framtíðina.“