Vatnshæð lækkaði talsvert í gær

Vatnsstaðan er áfram há.
Vatnsstaðan er áfram há. Ljósmynd/Lögreglan

Vatnshæðin í Hvítá hefur lækkað um einn og hálfan metra frá því um fyrir helgi og þar af lækkaði hún um níutíu sentimetra seinni partinn í gær. 

Þetta segir Sigríður Kristjánsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu íslands, í samtali við mbl.is.

Vatn hefur flætt upp úr árfarveginum frá 2. janúar eftir að ísstífla fór að að byggjast upp í ánni nærri Brúnastöðum og Flóaáveituskurðinum 30. desember.

Áfram há vatnsstaða

„Það er enn þá dálítið há vatnsstaða en hún er mikið lægri en hún var fyrir helgi. Ástandið er svolítið ófyrirsjáanlegt, það er kuldatíð áfram þannig það er erfitt að spá fyrir hvað nákvæmlega gerist.“

Spurð hvað útskýri lækkandi vatnshæð segir hún erfitt að segja nákvæmlega til um það. Þó gæti verið að vatnið sé búið að finna sér farveg, mögulega undir sjálfri stíflunni.

„Líklegast hefur eitthvað losnað og hún finnur sér leið niður í sinn farveg í staðinn fyrir að fara yfir í Flóaáveituna. Við fáum kannski aðeins betri mynd af þessu í birtingu,“ segir Sigríður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert