Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra er spennt fyrir komandi formannsslag í Sjálfstæðisflokknum. Hún segir að það hafi verið lærdómsríkt að vera með Bjarna Benediktssyni í stjórnmálum.
Þetta kemur fram í samtali Kristrúnar við mbl.is að ríkisstjórnarfundi loknum.
„Ég hef haft mjög gaman af honum Bjarna og haft gaman að því að takast á við hann í pólitíkinni. Hann hefur verið með mjög skýra sýn fyrir sinn flokk og auðvitað mikla reynslu,“ segir Kristrún.
Bjarni tilkynnti í gær að hann hygðist ekki gefa kost á sér til formennsku flokksins og hygðist sömuleiðis segja af sér þingmennsku.
Hún segir að það hafi verið „mjög lærdómsríkt“ að vera með honum í stjórnmálum, sérstaklega þegar kemur að pólitískum skoðanaskiptum.
„Það verður eftir því tekið að hann er farinn, ekki spurning. En ég líka hlakka til að sjá hvað hann tekur sér fyrir hendur,“ segir Kristrún.
Bjarni tók við sem formaður Sjálfstæðisflokksins árið 2009 og hefur setið á Alþingi frá árinu 2003. Hann hefur gegnt embættum á borð við forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra.
Til stendur að halda landsfund Sjálfstæðisflokksins í lok febrúar og bendir flest til þess að hart verði barist um formannsstólinn.
Hver heldurðu að verði næsti formaður Sjálfstæðisflokksins?
„Það hef ég ekki hugmynd um. En ég fylgist spennt með eins og aðrir,“ segir Kristrún.