Stefán E. Matthíasson, sérfræðingur í almennum skurðlækningum og æðaskurðlækningum, fjallar um ofuriðgjöld vegna nýrra laga um sjúklingatryggingu í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Um sé að ræða gríðarlegar hækkanir og eitthvað sem sé gert algerlega að nauðsynjalausu.
Hann segir að sjúklingatrygging sé trygging sem heilbrigðisstarfsfólki sé skylt að hafa samkvæmt lögum. Hún eigi að tryggja sjúklinga sem verði fyrir tjóni í heilbrigðisþjónustu sem m.a. sé ekki rakið til gáleysis eða vanmeðferðar eða hreinna mistaka ef við á. Að auki sé skylt að hafa starfsábyrgðartryggingu. Heilbrigðisstarfsfólk sem starfi sjálfstætt hafi hingað til keypt báðar þessar tryggingar hjá tryggingafélögum á markaði gegn hóflegu gjaldi.
Hann bendir á að með nýjum lögum um sjúklingatryggingu, sem hafi tekið gildi 1. janúar, muni sjúklingatryggingin færast til Sjúkratrygginga Íslands (SÍ).
„Því mun heilbrigðisstarfsfólk sem starfar sjálfstætt og hefur áður keypt sjúklingatryggingu hjá vátryggingafélögum á almennum markaði vera með tryggingu hjá SÍ. Hins vegar mun því áfram vera skylt að kaupa starfsábyrgðartrygginguna hjá vátryggingafélögum á markaði,“ skrifar Stefán.
Hann bendir einnig á, að við gildistöku nýju laganna muni allar stofnanir, fyrirtæki og einstaklingar sem veiti heilbrigðisþjónustu falla undir sjúklingatryggingu hjá SÍ. Hann tekur fram að þær stéttir sem starfi sjálfstætt og hafi hlotið leyfi landlæknis til að nota starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar séu 34 talsins.
„Heilsugæslustöðvar og aðrar heilbrigðisstofnanir sem reknar eru af öðrum en ríki eða sveitarfélögum, auk heilbrigðisstarfsfólks sem starfar sjálfstætt, skulu greiða iðgjald til Sjúkratrygginga fyrir viðvikið. Opinberar stofnanir sem reknar eru af ríki eða sveitarfélögum eða stofnunum á þeirra vegum hins vegar ekki,“ skrifar Stefán enn fremur.
„Skv. fyrirliggjandi reglugerðardrögunum fá heilbrigðisráðherra um framkvæmd laganna mun iðgjald fyrir þessa tryggingu hækka ævintýralega frá því sem var hjá tryggingafélögum á almennum markaði. Hér er um tuga og upp í hundruð % hækkanir að ræða sem nema frá tugum-, hundraða- eða milljónum króna í mörgum tilfellum. Þar að auki hækka iðgjöld vegna annarra starfsmanna viðkomandi heilbrigðisfyrirtækja í sama takti. Erfitt er að henda nákvæma reiður á heildarupphæð þessara hækkana en um er að ræða verulegar upphæðir sem líklega eru vel yfir 200 milljónir króna á ársgrundvelli. Gjaldskráin að baki þessu er að auki meingölluð og ógegnsæ,“ skrifar Stefán.
Hann tekur fram að það þurfi að spyrja þarf gagnrýninna spurninga um þetta mál og þá ofurskattlagningu sem verið sé að leggja á þessar 34 heilbrigðisstéttir og fyrirtæki þeirra. Og algerlega að nauðsynjalausu. Ekki síst í ljósi þess að fyrirtæki í rekstri ríkis eða sveitafélaga greiða ekkert iðgjald.